140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:23]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þetta andsvar frá hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur. Sú umræða sem hefur farið fram í þinginu um þetta mál er má segja nánast einræða stjórnarandstöðunnar með örfáum undantekningum. Hv. þm. Mörður Árnason las hér upp í gær hvaða stjórnarþingmenn höfðu talað. Mig minnir að þeir hafi ekki verið fleiri en fimm um kvöldmatarleytið í gær. Gott og vel.

Það sem ég er að kalla eftir er að þetta mál verði betur unnið og það reiknað út heildstætt hvaða áhrif frumvarpið hefur á heildarmyndina. Það er vitað að megnið af skuldum sjávarútvegsins er í Landsbankanum, þá tala ég um megnið, ég er ekki með prósentuna upp á hár. Þegar fulltrúar Landsbankans koma fyrir atvinnuveganefnd og segja að þetta leiði af sér afskriftir hjá bankanum upp á 31 milljarð er með ólíkindum að ekki skuli vera hlustað á þau rök og það skoðað betur.

Því miður, herra forseti, virðist ríkisstjórnin telja sig hafa opinn tékka í ríkissjóð fyrir hvað sem er, samanber það sem ég minntist á í ræðu minni að nú þarf ríkið að standa í skilum með rúma 19 milljarða sem eiga að fara í Landsbankann vegna þess að þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, veitti þeim banka ríkisábyrgð. Hver á að bera ábyrgðina á því? Hann taldi okkur þingmönnum trú um að þetta mundi ekki kosta ríkið neitt, svo var dregið í land með það og sagt að þetta mundi kosta 11 milljarða. Ég segi ekki annað en: Hvers á þjóð að gjalda sem hefur ríkisstjórn sem stendur með ríkissjóð galopinn og dælir þaðan út fjármagni og ríkisábyrgðum út í loftið?