140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:35]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Mig langar að ítreka þá fyrirspurn sem fram hefur komið í umræðunni um fundarstjórn forseta um hvenær þingfundi muni ljúka í kvöld, hvort það verði um miðnæturbil eða hvort það verði um tíuleytið. Við höfum á þessu þingi mikið talað um hinn fjölskylduvæna vinnustað Alþingi. Margir þingmenn eiga börn, skólar eru nú komnir í frí og sá sem á börn þarf að geta svarað því hvort og hvenær maður kemur heim þegar spurt er. Það er skemmtilegra að geta svarað börnunum sínum því. Þess vegna væri ágætt að vita hvenær þingfundi lýkur í kvöld og jafnframt hvað þingfundur muni standa lengi á morgun. Það væri ágætt ef hæstv. forseti gæti upplýst okkur um það. Það er engin starfsáætlun í gildi þannig að það er ekki hægt að taka ákvarðanir lengra en nokkra klukkutíma fram í tímann. Það er afskaplega bagalegt, og í anda þess að Alþingi er og á að vera fjölskylduvænn vinnustaður hvet ég hæstv. forseta til dáða og bið hann að svara þingheimi því hversu lengi við höldum áfram.