140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:26]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti hefur ekki brugðist við ábendingum mínum frá því áðan. Ég skal því reyna að útskýra betur hvað ég á við. Heimspekingar hafa velt fyrir sér þeirri spurningu hvort heyrist í tré sem fellur í skógi þar sem enginn er nálægur til að heyra tréð falla. Á sama hátt getum við velt fyrir okkur með þingmenn sem ræða mikilvægt mál fram eftir nóttu án þess að stjórnarliðar séu til staðar, þeir sem bera ábyrgð á málinu, til að hlýða á, hvort þær ræður hafi farið fram. Þær skiluðu að minnsta kosti ekki árangri vegna þess að tilgangurinn með þessum umræðum á að vera sá að bæta frumvarpið. Þar af leiðandi er virðulegi forseti að búa til þá hættu að við þurfum einfaldlega (Forseti hringir.) að endurtaka okkur í umræðunni í þeirri von að stjórnarliðar verði hennar varir.