140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:41]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég held að það sé hægt að ná sátt á þeim nótum sem hv. þingmaður nefndi. Við höfum þessa sögu fyrir framan okkur, við vitum hvernig fer ef við búum til regluverk utan um sjávarútveginn eins og var hér á árum áður sem leiðir til sóunar og taprekstrar í sjávarútvegi. Þetta þekkir þjóðin alveg ágætlega og ég tel að sú lýsing sem kom fram hjá hv. þingmanni sé ágæt en það sem ég held að við ættum að gera núna reyndar er að við ættum að ýta frá frumvarpinu um breytingar á stjórn fiskveiðikerfisins, sem er enn þá inni í nefnd þrátt fyrir að nú sé komið vel inn í júnímánuð, og horfast í augu við það að frumvarpið er meingallað. Þá væri ráð að setja af stað einhvers konar samvinnu milli stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðuflokkanna, þeirra sem starfa í sjávarútvegi, bæði í fiskvinnslunni og útgerðinni, og síðan háskólasamfélagsins og reyna að vinna þetta (Forseti hringir.) með einhverjum öðrum hætti en gert hefur verið. Það er ekki hægt að ná sátt á þeim grunni sem reynt hefur verið.