140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:53]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er einmitt þannig í þessari umsögn Alþýðusambands Íslands að gerðar eru verulegar athugasemdir. Stærsta athugasemdin varðar útreikninginn, þ.e. að byggt sé á gömlum gögnum en ég tek eftir því að einmitt í þeim tillögum sem hafa verið lagðar fram og eru nú til meðferðar við 2. umr. er akkúrat á því vandamáli tekið. Það hefur þegar verið gert.

Ég skal játa að ég þekki ekki það vel til þingskapa en ég held að venjan sé sú að sendar séu út beiðnir um umsagnir og þær síðan veittar þingnefndum en reyndin er sú að þingmenn vilja tala mjög lengi í 2. umr. og koma með þeim hætti í veg fyrir að málið sé tekið til gagngerðrar og góðrar skoðunar á milli umræðna og í atvinnuveganefnd. Þess vegna sitjum við í þessari löngu umræðu fram eftir öllu. (Gripið fram í: Hún er góð.)