140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[00:31]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú er hv. síðasti ræðumaður og þingmaður frægur fyrir orðgnótt og nánast sjálfvirkan sleppibúnað í þeim efnum í þingsal. Í fyrrinótt veittist hann afar ósmekklega að ættingjum hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, að því er virðist í þeim tilgangi einum að sverta hana og baráttu hennar fyrir réttlátu fiskveiðistjórnarkerfi og gefa í skyn að hún byggði á fjárhagslegum hagsmunum ættingja hennar.

Nú vil ég spyrja þennan hv. þingmann hvort hann hafi burði í sér til að biðja hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur afsökunar. — Hann ansar mér ekki.

Þá hafði hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir erindi sem erfiði í þennan þingsal. Ég endurtek spurninguna og spyr hv. þm. Árna Johnsen hvort hann hafi manndóm í sér til að biðja hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur afsökunar og draga ómakleg orð sín (Forseti hringir.) til baka.