140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[01:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður kom inn á eitt mál sem ég held að við séum býsna sammála um og höfum sameiginlega sýn á, þetta Evrópusamband sem einhverjir vilja ólmir komast inn í. Hv. þingmaður nefndi það aðeins í ræðu sinni. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki undarlegt að þeir hinir sömu og nánast leggja til að rífa niður að miklu leyti það kerfi sem við búum við í dag, sem Evrópusambandið vill taka upp hjá sér ef eitthvað er að marka fréttir fyrir nokkru, vilji ólmir komast í Evrópusambandið. Eins langar mig að spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki undarlegt að breyta mikið kerfi sem er tilnefnt til alþjóðlegra verðlauna fyrir það hversu gott það er, hversu mikið réttlæti það skapar og betra samfélag. Það er eins og að stjórnarflokkarnir hafi það eitt að markmiði að breyta kerfinu, nánast sama hvernig því er breytt og hvaða afleiðingar það hefur. Ekkert virðist skeytt um athugasemdir sem koma fram, hvað þá þær staðreyndir að erlendir aðilar horfa mjög til þessa kerfis enda er þetta eitt af fáum sjávarútvegskerfum í heiminum sem ekki eru ríkisstyrkt. Það hlýtur að skipta þó nokkuð miklu að geta byggt upp slíkt kerfi að það þurfi ekki að reka það á styrkjum og vera þannig með samkeppnishæfan (Forseti hringir.) hátækniiðnað sem sjávarútvegurinn er í rauninni.