143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:56]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Eins og ég sagði í andsvari áðan skal ég reyna að hafa ræðu mína eins stutta og mér er mögulegt vegna aðstæðna, en ég ætla þó ekki að biðja nokkurn mann afsökunar á því að nota einhvern smáræðutíma í þetta stóra mál og líka í tilefni af þeim tímamótum að hæstv. forsætisráðherra hefur nú loksins tekið þátt í umræðunni.

Ég ætla fyrst að segja örfá orð um 110%-leiðina því að það var verið að nota hana sem einhvern samanburð við þessa aðgerð. Ég hef fullan skilning á því að hæstv. forsætisráðherra fái sér vatn í glas. Þar er verið að bera saman ekki bara epli og appelsínu, það er verið að bera saman algerlega ósambærilega hluti sem voru hugsaðir á allt öðrum grunni og mörkuðust af allt öðrum aðstæðum. 110%-leiðin verður til eftir langar og strangar viðræður stjórnvalda og fjármálakerfisins um ráðstafanir til að reyna að taka á því sem talinn var vera hættulegasti og alvarlegasti vandi gagnvart heimilunum og fjármálakerfinu á þeim tíma, og reyndar var verið að vinna með bæði fyrirtæki og heimili samtímis á þeim tíma. Þá var staðreyndin einfaldlega sú að hluti heimilanna og fyrirtækjanna voru yfirskuldsett og það lá ljóst fyrir að þau mundu aldrei ráða við þær skuldir. Það var gríðarlega mikilvægt fyrir hagkerfið að takast fljótt og vel á við þetta og færa niður skuldir sem ljóst mátti vera að mundu aldrei greiðast. Sporin hræddu frá þeim löndum sem höfðu áður lent í fjármálaáfalli og höfðu skotið því á frest að fara í þessi mál og gefa þau upp. Japan er stærsta dæmið þar um og hinn glataði áratugur þeirra vegna þess að þeir færðu ekki niður og afskrifuðu ekki skuldir eftir efnahagsáföll og bólu hjá sér heldur lengdu í lánum, geymdu þau og hafa gert síðan í stórum stíl, vissulega á mjög lágum vöxtum sem eru þar í landi. Það eru allir sammála um að þetta hefur hamlað mjög því að Japan næði aftur fyrri þrótti sínum sem hagkerfi. Þessi vandi blasti við Íslendingum. Það var augljóst mál að það var gríðarlega mikilvægt að losa bæði heimili og fyrirtæki út úr því skuldafangelsi sem bullandi yfirveðsetning var.

Þetta réðist líka af öðru sem var það að bankar og lífeyrissjóðir tóku náttúrlega ekki í mál að vera þátttakendur í aðgerðum þar sem sannanlega innheimtanlegar eignir þeirra og þar sem góð veð væru til staðar væru færðar niður. Þar segja þeir ósköp einfaldlega: Við getum það ekki, við megum það ekki. Lífeyrissjóðirnir segja: Þetta eru eignir sjóðfélaga okkar og það væri stjórnarskrárbrot ef við færum að færa þær niður. Og bankarnir segja: Við verðum að vinna samkvæmt bestu viðskiptaháttum sem þekkjast í fjármálastofnunum og fjármálageiranum, við erum bundnir af því, en við getum réttlætt að afskrifa skuldir þar sem veðin duga ekki lengur og/eða eigna- og tekjustaða viðkomandi er slík að það er ólíklegt að þessi lán innheimtist nokkurn tíma og það á bæði við um fyrirtæki og heimili. Þannig fæðist 110%-leiðin gagnvart heimilunum sem raunar var 100% leið vegna þess að nafngiftin tekur mið af því að það var fasteignamat ársins eða markaðsvirði í árslok 2010 sem réði sem viðmiðun en í reynd vissu allir að 10% hærra fasteignamat var á leiðinni eftir áramótin, þannig að það snerist um að færa þessar yfirveðsettu eignir niður að nokkurn veginn verðmæti veðsins, íbúðarinnar eða því sem fyrirtækið stóð fyrir.

Beina brautin fyrir fyrirtæki, sem fleiri þúsund lítil og meðalstór fyrirtæki fóru svo í gegnum eða fengu skoðun samkvæmt, skiptir líka gríðarlega miklu máli fyrir endurreisn íslensks efnahagslífs. Tvennt var auðvitað algerlega óumflýjanlegt til að Ísland kæmist af stað í einhvern efnahagsbata og verður aldrei of oft á það minnt. Í fyrsta lagi, og kemur að því sem ég ætla að ræða aðeins á eftir: Það hefði engin efnahagsleg endurreisn hafist á Íslandi fyrr en hér var komið starfhæft bankakerfi. Það var eitt brýnasta viðfangsefni stjórnvalda á árinu 2009 að koma sem fyrst í gang starfhæfu og fjármögnuðu bankakerfi þannig að það gæti svo farið að vinna úr málefnum viðskiptavina sinna, skuldugum fyrirtækjum og heimilum. Það tókst og þess vegna var hægt á árinu 2010 að undirbúa og fara af stað með víðtækar aðgerðir til að takast á við skuldavanda fjármálakerfisins og það var meðal annars gert með þessu.

Af hverju afskrifuðust háar fjárhæðir í sumum tilvikum í 110%-leiðinni? Það var vegna þess að það var til fólk sem var með mikla yfirveðsetningu og átti svo litlar eignir eða hafði svo lágar tekjur að það féll inn fyrir mörk aðgerðarinnar. Þá sögðu bankar, þá sögðu lífeyrissjóðir: Já, þetta eru augljóslega lán, þetta eru augljóslega skuldir sem munu sennilega aldrei innheimtast. Það er ekkert veð á bak við þær, það eru engar eignir í búum heimila viðkomandi og viðkomandi eru líka með lágar tekjur þannig að þeir munu ekki ráða við að borga af yfirveðsettum lánum. Muna menn ekki að það voru bæði eigna- og tekjuskerðingarmörk innbyggð í 110%-leiðina? Síðan framkvæmdu bankar hana að vísu með mismunandi hætti og sumir voru rausnarlegri en aðrir þegar kom að því að taka tillit til annarra eigna o.s.frv., en almennt var það gert. Bara til að halda því til haga, svo að menn beri ekki saman, mér liggur við að segja vínber og appelsínur eða eitthvað slíkt því að þetta er svo ólíkt, og séu ekki að með afflytjandi málflutning um það.

Þá að uppgjöri milli gömlu og nýju bankanna. Örstutt um stóru útlínurnar í því viðfangsefni. Það er þannig að á grundvelli neyðarlaganna — og mikilvægasta einstaka ákvæði neyðarlaganna var að yfir nótt breyttu Íslendingar kröfuröð í gjaldþrota bú fjármálastofnana. Í staðinn fyrir að innstæður í bönkum og sparisjóðum væru almennar kröfur voru þær gerðar að forgangskröfum yfir nótt. Þetta hafði og hefur gríðarlegt gildi og á þessu byggir efnahagsleg endurreisn Íslands. Með ánægjulegri dögum mínum voru þegar neyðarlögin stóðust, bæði fyrir dómi hér heima og fengu stimpil utan úr Evrópu, því að á þeim byggði eiginlega allt. Á grundvelli þessa gátum við fært allar innstæður í landinu yfir í nýja banka og vegna þess að þetta voru forgangskröfur í búin sem þá höfðu stofnast með falli bankanna máttum við færa eignir sem því nam með út úr búinu þannig að þær eignir stæðu á móti skuldunum. En við máttum ekki og höfum aldrei mátt færa krónu meira. Hvað væri það? Það væri þjófnaður vegna þess að afgangurinn af verðmætum búanna er eign þeirra sem búið skuldar, kröfuhafanna. Þeir eiga leifarnar af verðmætunum í föllnu íslensku bönkunum, þessa 2.000–2.500 milljarða sem standa eftir upp í um og yfir 10 þúsund milljarða sem voru lýstar kröfur í þessi bú, þegar orðnar eða væntanlegar afskriftir lánardrottna og þeirra sem áttu undir í íslensku bönkunum eru einhvers staðar á bilinu 6.500–7.500 milljarðar kr. og stærsti einstaki reikningurinn þar fer til Þýskalands. Þetta var svona.

Fjármálaeftirlitið stjórnaði uppskiptingu milli gömlu og nýju bankanna. Framan af var ekki reiknað með að hlutverk ríkisvaldsins eða fjármálaráðuneytisins yrði annað en að stofna nýja banka til að taka við innstæðunum og bíða svo eftir því að Fjármálaeftirlitið lyki uppgjörinu. Menn héldu framan af að það væri hægt að fá einhvern góðan aðila til að leggja hlutlaust mat á verðmætið sem þarna fór yfir og svo kæmi bara ein tala út úr því. Það voru upphaflegu hugmyndirnar þegar menn voru að reyna að rýna inn í það myrkur sem þarna var á haustmánuðum og fram um áramót 2008/2009. Þetta voru nánast fordæmalausar aðstæður og eiginlega óþekkt sem hér var gert. Það er alveg rétt að það eru viss sérkenni á þeirri íslensku leið sem valin var til að verjast algerri bráðnun íslenska hagkerfisins, sem byggði á þessum aðskilnaði á grundvelli neyðarlaganna.

Fjármálaeftirlitið réð Deloitte, valdi þá til að gera mat á eignasafninu, þannig að það var ekki bara farið yfir bæjarlækinn í þeim efnum og sóttur einhver og einhver heldur eitt virtasta erlenda sérfræðifyrirtæki á þessu sviði. Til viðbótar því var fyrirtækið Oliver Weiman ráðið sem ráðgjafi um lagaleg álitamál og til að gefa Fjármálaeftirlitinu ráðgjöf um það og sjálfstætt álit á því hvort Deloitte væri að gera þetta samkvæmt bestu aðferð. Þannig var nú reynt að vanda til verka. Það var ekki eins og einhverjir sauðir væru settir í þetta. En þá gerist það að þetta reynist hægara sagt en gert. Niðurstaða Deloitte kemur í aprílmánuði 2009, undir lok apríl, og hverju skila þeir af sér? Jú, þeir segja: Það er ógerlegt að meta nákvæmlega verðmæti þessara eigna og slá tölu á þetta milli bankanna, það er ekki hægt, óvissan er allt of mikil. Og þeir skiluðu verðbili. Þeir sögðu að að meðaltali gætu endurheimtur á öllum eignum sem færðust yfir verið 47–55%. Það gæti þýtt að það þyrfti að bæta gömlu búunum upp fjárhæðir sem næmu á bilinu 442–766 milljörðum sem nam þá því hvað eignirnar voru verðmætari en skuldirnar sem nýju bankarnir fengu. Af hverju þurfti að bæta gömlu búunum þetta upp? Nú mætti hæstv. forsætisráðherra gjarnan hlusta. Það var vegna þess og er vegna þess og það er enn vegna þess að það er stjórnarskrá í gildi á Íslandi. Í henni er eignarrétturinn varinn og friðhelgaður. Það má ekki taka eignir bótalaust af þeim sem þær eiga og það skiptir ekki máli hvort það er hann Jón Jónsson, vinur okkar á horninu, eða þjóðkirkjan eða fyrirtæki norður í landi eða kröfuhafar. Það er þannig í íslenskum rétti og það er þannig í bæði íslenskum og alþjóðlegum skiptarétti sem Ísland verður auðvitað að horfast þarna í augu við.

Þá vandast málið. Hvernig á að gera þetta úr því að það er ekki hægt að fá eina tölu, eina niðurstöðu, segja virtustu sérfræðingar sem Íslendingar höfðu fengið sér til aðstoðar í þessum efnum. Niðurstaðan blasti auðvitað við. Þetta er eitthvað sem verður þá að finna aðrar leiðir til að leysa en þær að Fjármálaeftirlitið reyni að setja puttann upp í loftið og slengja fram einni tölu sem aðilar málsins gætu orðið ósáttir við. Þess vegna, hvort sem heldur var íslensku bankarnir ef þeim fundust eignirnar metnar of hátt, eða erlendir kröfuhafar eða slitastjórnir ef þeim fundust eignirnar metnar of lágt. Það lá fyrir. Hvort tveggja gat verið ávísun á málaferli og tafir og ef það er eitthvað sem við vildum ekki á þessum tímapunkti, á vordögum 2009, voru það tafir á því að við kæmum nýju bönkunum af stað og gætum fjármagnað þá, því að það var ekki hægt fyrr en þetta uppgjör hafði farið fram. Þannig breyttist farvegurinn í fullri sátt milli Fjármálaeftirlitsins, fjármálaráðuneytis, ráðgjafanna innlendra og erlendra lögfræðinga og sérfræðinga yfir í að það yrði að reyna að ná fram lausn með einhvers konar samningi. Og ef það væri ekki hægt að ná með samningum einni tölu þá yrðu menn að reyna að finna einhverja mekanisma, einhver tæki til að takast á við það að finna að lokum út úr því hvert hið endanlega endurgjald ætti að vera, því að allir hugsandi menn vissu að á því valt of mikið. Við þurftum að ná fram niðurstöðu sem tryggði hvort tveggja í senn hraða endurreisn bankanna og að þeir yrðu starfhæfir og reyna að afstýra eins og mögulegt var hættu á málaferlum og töfum. Þetta var bara svona. Inn í þennan farveg fer málið.

Þá fer vissulega fjármálaráðuneytið að koma meira að málinu, enda gat þá enginn annar fyrir hönd eignarhalds á nýju bönkunum samið um það en fjármálaráðuneytið. Það var líka reynt að vanda til verka þar. Við réðum þaulreyndan, virtan, íslenskan bankamann sem hafði bestu meðmæli, bæði innan lands og erlendis frá, hafði unnið í stórum erlendum fjármálafyrirtækjum og hér á Íslandi, Þorstein Þorsteinsson, til að stjórna verkinu. Ég trúi því enn þann dag í dag, jafn heitt og innilega og ég gerði strax þegar ég fór að kynnast honum og vinna með honum, að við hefðum ekki getað fengið betri mann.

Við gerðum meira. Við fórum í útboð og létum alþjóðleg lögfræði- og ráðgjafarfyrirtæki bjóða í að aðstoða okkur og við völdum síðan fyrirtækið Hawkpoint með allan sinn herskara lögfræðinga og sérfræðinga á þessu sviði og ég get lofað ykkur því að þetta var ekki ókeypis, það var ekkert sparað til í þeim efnum. Svona gekk þetta áfram og að þeirri niðurstöðu að menn fundu leiðir til að klára þetta uppgjör. Í þeim tilvikum sem þess þurfti var búið til einhvers konar uppgjörsbréf sem framtíðin mundi skera úr um að hve miklu leyti það borgaðist, ef það borgaðist, eða að fullu, eftir því hver raunveruleikinn yrði. Svona var þetta. Það var engin ein tala, það var ekkert eitt svigrúm, það var aldrei til. Grundvallarmisskilningur málsins sem hefur því miður lifað fram á þennan dag, eins og við heyrðum áðan, er sá að það hafi orðið til tiltekið svigrúm. Halda menn að það hafi orðið til peningar við gjaldþrot íslensku bankanna einhvern veginn? Hvaðan komu þeir? Hvar var til svigrúm? Urðu til peningar til frjálsrar ráðstöfunar í höndum stjórnvalda til að færa niður lán yfir línuna? Nei. Það urðu sko ekki til peningar við gjaldþrot íslensku bankanna og ekki heldur við stofnun nýju bankanna. Það töpuðust óhemjulegar fjárhæðir. Íslandi, litla Íslandi, tókst að blása út svo gríðarlegt bankakerfi á örfáum árum að við eigum fimmta, níunda og tíunda stærsta gjaldþrot veraldarsögunnar. Til samans er gjaldþrot íslensku bankanna þriðja stærsta gjaldþrot í heimi, það er það. Á eftir Lehman Brothers og Washington Mutual eru íslensku bankarnir þrír til samans þriðja stærsta gjaldþrot veraldarsögunnar. Þeir eru meira en tvöfalt stærri en Enron, hafið þið einhvern tíma heyrt um Enron? Þetta tókst okkur. Það er verulegt afrek hjá 320 þúsund manna þjóð að komast í þriðja sæti á lista yfir stærstu gjaldþrot veraldarsögunnar. Það urðu ekki til peningar, það varð ekki til neitt svigrúm. Það urðu ekki til nein verðmæti til frjálsrar ráðstöfunar í höndum íslenskra stjórnvalda. Það er eins ægilegur misskilningur og nokkur getur verið og það var aldrei til nein ein tala. Það var ekki hægt að reikna hana út, sagði Deloitte. Þetta er allt saman misskilningur, allt saman.

Það ræðst líka af því sem ég áður minnti á, að við eignuðumst ekki neitt sem við máttum ekki eiga, þegar menn giska á eitthvert yfirfærsluverðmæti eignanna og það er fyrst byggt á bráðabirgðaefnahagsreikningi. Mér heyrist hæstv. forsætisráðherra vera að tala út frá því að bráðabirgðaefnahagsreikningur nýju bankanna í nóvember 2008 hafi verið endanleg niðurstaða. Er ég ekki aðeins búinn að fara yfir það og útskýra að það var ekki aldeilis þannig? Það er ekki hægt að tala svona. En menn vissu auðvitað að þessi eignasöfn voru illa sködduð. Það lá fyrir til dæmis að það færðust yfir til innlendu bankanna, því að í grófum dráttum var aðgreiningin innlendar innstæður og innlendar skuldir, en hið erlenda var skilið eftir í þrotabúunum, afleidd viðskipti og ýmislegt fleira, um þetta geta menn lesið, það er nokkuð flókið. Menn vissu mikið af þessum eignum voru skaddaðar. Menn vissu til að mynda að sum stóru fjárfestingar- og eignarhaldsfélögin voru ónýt. Það mundi sennilega ekkert fást upp í þær skuldir vegna þess að þetta voru skeljar, ofurskuldsettar skeljar um eignarhald í öðrum fyrirtækjum, tengdust hringferli peninganna sem vinur okkar hv. þm. Pétur H. Blöndal réttilega talar oft um. Þau voru aldrei til þessi verðmæti. Þetta var að mestu leyti froða eins og kom í ljós þegar spilaborgin hrundi.

Þess vegna var það að eignirnar voru gróft flokkaðar í nokkra flokka og menn gerðu sér strax grein fyrir því að þeir mundu innheimtast í mismunandi miklum mæli. Þar sem minnstu afskriftirnar voru í tilviki allra þriggja bankanna, það voru reyndar meira en bara útlán til heimila, það var það sem kallað var smásöluútlán, „retail“ á enskunni, ef ég má, herra forseti, og þar voru afskriftartölurnar lægstar. Þar voru menn að gera sér vonir um um 60, jafnvel upp í 70% endurheimtur. Inni í þeim pakka voru þessi íbúðalán að því marki sem þau lágu hjá bönkunum.

Hver er nú niðurstaðan? Hvað varð um „svigrúmið“ sem aldrei var til? Hafi það verið í einhverjum skilningi þarna, þ.e. menn gerðu ráð fyrir því að eitthvað af þessum lánum mundi afskrifast, þá er veruleikinn sá að það er búið, svigrúmið er farið, bankarnir eru búnir að færa niður lán til heimilanna talsvert á þriðja hundrað milljarða kr. Svo snemma sem um mitt sumar 2011 fór ég með endurskoðendum yfir reikninga og gögn frá einum bankanum. Ég ætla ekki að nafngreina hann vegna þess að þeir sögðu: Við erum búnir að afskrifa af þessum smásölulánum meira en sem nemur áætluðu afskriftinni þegar lánin voru flutt yfir. Ég fór yfir þetta með fagmönnum því að ég vildi sannreyna þetta fyrir sjálfan mig og ég sá að þetta var rétt. Sá banki var strax á árinu 2011 komin í mínus, hann var búinn að færa lán heimilanna meira niður en sem nam afskriftinni sem hafði verið áætluð á þau þegar þau voru færð yfir. Ég endurtek: Áætluð á þau. Því að það var ekki endanleg tala, það var ekki niðurstaða, enda var hún ekki til. Ég reikna með því, en hef þann fyrirvara á að ég hef ekki séð nein gögn af þessu tagi nýlega, ég er ekki í þeirri aðstöðu, að þetta sé að nálgast það að vera svipað hjá hinum bönkunum, að a.m.k. annar af hinum stóru bönkunum sé kominn í núll ef ekki líka í mínus, þ.e. að vegna ólögmætra gjaldeyrislána, vegna 110%-leiðarinnar, vegna ýmissa eftirgjafa sem bankarnir sjálfir hafa samið um við viðskiptavini sína, vegna bílalána og vegna slíkra hluta séu þessi smásölulán í a.m.k. í tveimur af þremur bönkum búnir að fá meiri afskriftir en nam yfirfærslum. Þá er búið að nota það svigrúm, er það ekki? Þá er búið að nota svigrúmið sem aldrei var til í reynd heldur var aðeins áætlun um að sennilega mundi heilmikið af þessu tapast. Þetta var svona og er svona.

Herra forseti. Ég ætla ekki að þreyta menn með meira masi í þessum efnum. Ég er að þessu aðallega auðvitað framtíðarinnar vegna, þingtíðindanna vegna og sjálfs mín vegna. Ég legg það ekki á mig eftir yfir 30 ára veru hér að nota ekki rétt minn til að tala og leiðrétta það sem ég tel vera misskilning, vanþekkingu og þar sem menn eru úti í mýri með málflutning sinn. Það er óhollt fyrir lýðræðið og það er óhollt fyrir þingræðið ef menn dofna svo að þeir sitja þegjandi undir slíku. Það ætlar Steingrímur J. Sigfússon ekki að gera, jafnvel þótt hæstv. forsætisráðherra eigi í hlut.