144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[12:51]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður talaði um að það væri hennar skoðun samkvæmt reynslu nýliðinna ára að sá kvóti sem Byggðastofnun hefur til ráðstöfunar sem sérstakan byggðakvóta nýttist vel. Ég er henni sammála um það, en almennt hefur mér fundist að hinn almenni byggðakvóti hefði ekki haft þær jákvæðu afleiðingar í öllum tilvikum, ekki verið nógu hnitmiðaður eins og menn vildu. Í frumvarpinu er verið að lækka almenna byggðakvótann um 600 tonn og verið er að auka sérstaka byggðakvótann um næstum 1.200 tonn sýnist mér og það er jákvætt.

En mig langar til að spyrja hv. þingmann: Miðað við mismunandi reynslu sem við þingmenn teljum okkur hafa, og landsmenn og byggðarlögin, af þessum tveimur tegundum byggðakvóta er þá ekki bara ráðlegt að draga enn meira úr hinum almenna kvóta og setja sem því nemur í auknum mæli yfir í sérstakan byggðakvóta sem Byggðastofnun hefur til ráðstöfunar? Hvað segir hv. þingmaður um það?

Í öðru lagi er ég þeirrar skoðunar að ýta eigi undir strandveiðiflotann. Ég tel að hann hafi skipt miklu máli. Þar er um að ræða oft og tíðum litlar fjárfestingar. Þeir bátar eru til og þetta hefur skipt mjög miklu máli eins og hæstv. ráðherra sagði fyrir lífið og fjörið í höfnunum í mörgum plássum, en það hefur líka skapað atvinnu og gert mönnum kleift að stunda sjó að sumarlagi. Hvað segir hv. þingmaður um þá hugmynd að nú þegar blasir við að vegna góðrar stöðu í hafinu verður að öllum líkindum aukið við þorskinn í kvóta, hvað segir hún um þá hugmynd að hluti af því verði tekinn til að auka það sem strandveiðiflotinn má veiða og stefna að því í framtíðinni að auka umfram þessi 8.600?