144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[20:34]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Jú, ég tek heils hugar undir það. Ég komst ekki yfir það í ræðu minni að klára lið 11. Ég tek nefnilega heils hugar undir það að við færum ráðherrum opnar heimildir í allt of miklum mæli í gegnum reglugerðarheimildir og ákvæði þannig að eðli málsins samkvæmt geta þeir í rauninni úrskurðað eftir sinni pólitík eða hvað það er hverju sinni sem ræður því hvernig sú reglugerð er útfærð. Ég vona að atvinnuveganefnd taki þetta til sín og ræði það og reyni annaðhvort að breyta þessu ákvæði eða draga fram hvað það er nákvæmlega sem ráðherra hyggst gera og með hvaða hætti. Sóknaráætlun er ein leið til að fara með þetta og af því að við erum alltaf að tala um byggðastefnu, sem á að sjást hvernig lítur út fram í tímann, þá eiga þeir sem eru að byggja upp veikari byggðir að geta haft eitthvað í höndunum til lengri tíma en bara frá hausti til hausts eða frá vori til vors. Ég tek undir það og held að það sé mjög mikilvægt að þetta verði útfært betur.

Eins og ég sagði í ræðu minni eru svo mörg verkefni sem þeir staðir sem standa veikir hafa sjálfir komið fram með. Ráðherra hefur á borðinu hugmyndir, vilji hann nýta sér þær, í gegnum sóknaráætlun sem unnar hafa verið fram til þessa og sem heimamenn sem voru falin þessi verkefni á sínum tíma vilja halda áfram að vinna með þannig að það væri kjörið til að setja þetta þar inn eða inn í Byggðastofnun með einhverri tiltekinni útfærslu þar, þá gæti þetta komið þar undir. En í öllu falli er ég sammála því að það þarf að afmarka þetta með einhverjum hætti en ekki hafa þetta opið fyrir ráðherra.