145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

fjárframlög til Verkmenntaskólans á Akureyri.

[15:22]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Borist hafa fréttir af því frá Verkmenntaskólanum á Akureyri að fjármálaráðuneytið hætti að greiða rekstrarfé til skólans um áramót með þeim rökum að skólinn fái ekki meira rekstrarfé fyrr en halli síðustu ára sé greiddur upp, u.þ.b. 20 millj. kr.

Það hljómar frekar einkennilega vegna þess að það eru þó nokkrar stofnanir með uppsafnaðan halla án þess að fjármálaráðuneytið hætti að greiða rekstrarfé.

Kallað hefur verið eftir skýringum og kvartað yfir því að menntamálaráðherra, sem var á ferð á Norðurlandi nýverið, hafi ekki sinnt kalli VMA um að mæta á fund með skólanum og útskýra mál sitt.

Ég ætla að gefa hæstv. menntamálaráðherra tækifæri til að koma hér upp og útskýra hvað er í gangi. Hvers vegna er Verkmenntaskólanum á Akureyri ekki greitt rekstrarfé? Er það eitthvað nýtt að allar stofnanir sem eru með halla undangenginna ára fái ekki rekstrarfé? Munu þá Landspítalinn og Landbúnaðarháskólinn og fleiri stofnanir lenda í sama vanda?

Það er eitthvað dularfullt í gangi hér. Fjármálaráðuneytið heldur því fram, ef ég skil rétt, að upplýsingar vanti frá menntamálaráðuneytinu um það með hvaða hætti Verkmenntaskólinn ætlar að greiða upp þennan halla. En ég á bágt með að trúa því, því að við samþykktum fjárlög fyrir árið 2016 og í þeim fjárlögum hlýtur sú upphæð sem er fyrir Verkmenntaskólann á Akureyri að byggja á einhverri rekstraráætlun sem menntamálaráðuneytið hefur farið yfir og samþykkt. Þetta er stórfurðulegt mál.

Virðulegur forseti. Ég óska eftir því að hæstv. menntamálaráðherra komi hér upp og geri grein fyrir því hvað í ósköpunum er í gangi.