149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[10:58]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar vangaveltur sem eru góðra gjalda verðar. Ég held að mikilvægt sé að hafa í huga varðandi kostnaðinn að þetta eru 2,9 milljarðar, af því eru 2,5 til þess að draga úr krónu á móti krónu skerðingum en gert er ráð fyrir því að það sé afturvirkt til 1. janúar þannig að það eru 2,5 á ársgrunni.

Varðandi það hvort heppilegt hefði verið að bíða hefur sá sem hér stendur margoft verið spurður hvenær eigi að stíga skref til afnáms krónu á móti krónu skerðingar og gera breytingar á kerfinu. Svarið hefur alltaf verið: Við erum að bíða eftir skýrslu hóps um breytt framfærslukerfi vegna þess að við viljum ekki gera breytingar sem ekki ríma við þá vegferð sem við ætlum síðan að fara í. Nú liggur sú skýrsla fyrir, ákvörðun meiri hluta ríkisstjórnarinnar liggur fyrir um að við ætlum að feta þá braut. Þess vegna erum við að gera breytingar hér sem ríma við það sem verður í nýju kerfi. (Forseti hringir.)

Ég deili ekki þeirri skoðun hv. þingmanns að við hefðum átt að bíða en ég er sammála því að það var mikilvægt að bíða þar til við tækjum ákvörðun um vegferðina svo að aðgerðirnar væru í samræmi við það sem ætti að taka við.