150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

um fundarstjórn.

[12:33]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Mér finnst mikilvægt að koma hingað upp og ræða aðeins hvað er að gerast í nefndum þingsins. Mig langar sérstaklega til að tala um velferðarnefnd þar sem ég sit, hvernig meiri hlutinn er að mínu mati að misnota vald sitt á gríðarlega hneykslanlegan hátt. Ég hef sjaldan komið hér upp jafn reið og ég er í dag og var í gær, en nú virðist það vera þannig að ef meiri hlutinn fær ekki sitt fram, ef meiri hlutinn fær ekki málin sín úr nefndum á þeim tíma sem hann fer fram á, án þess að minni hlutinn telji að málin séu tilbúin til að taka út, þá er meirihlutavaldi beitt til að taka þau mál úr nefndinni. Í stað þess að semja við minni hlutann, í stað þess að eiga eðlilegt samtal og málefnalegt samtal við minni hlutann eru málin rifin úr nefnd í valdi meiri hlutans. Mér finnst þetta ógeðfellt, frú forseti, og ég mótmæli því harðlega að svona sé komið fram við minni hluta Alþingis.

Ég vil einnig nefna að húsnæðismál barnamála- og félagsmálaráðherra eru hér síðast á dagskrá. Ríkisstjórnin talar um mikilvægi þess að afgreiða þetta mál og koma því til nefndar. (Forseti hringir.) Af hverju er þetta ekki framar á dagskrá? (Forseti hringir.) Ég legg til að þetta mál verði fært fyrst á dagskrá svo við getum rætt það almennilega.