150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

um fundarstjórn.

[12:34]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Forseti. Mig langar að taka undir með hv. þm. Halldóru Mogensen að það sé mjög sérstakt ástand sem nú hefur skapast í nokkrum nefndum Alþingis þar sem meiri hlutinn er að taka út mál sem eru í raun órædd. Eitt slíkt er, að mér skilst, verið að rífa út úr velferðarnefnd við þetta tækifæri. Sama virðist eiga að gerast í atvinnuveganefnd, taka út mál sem eru lítið rædd. Það sem er líka áhugavert er að meiri hlutinn virðist vera að taka út þau mál sem stjórnarandstaðan hefur flaggað í viðræðum flokkanna við þinglok sem vandræðamálum, mál sem stjórnarandstaðan hefur sagt að geti orðið til vandræða, að þetta mál vilji hún geyma og annað slíkt. Þau mál virðist núna eiga að taka úr nefndum, rífa þau úr nefndum, ókláruð, órædd, illa búin. Það virðist vera þannig. Hvaða áhrif halda menn að það hafi inn í þinglokaviðræðurnar þegar þeir fara í þennan leik? Svo tek ég undir það að síðasta mál á dagskrá, nr. 16, hlutdeildarlánin, sem hæstv. félagsmálaráðherra leggur fram, á vitanlega að vera miklu framar á dagskránni svo að hægt sé að ræða það.