150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

ársreikningar.

447. mál
[14:46]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Sem forritari verð ég að segja að þetta er athyglisverð og góð ábending. Fjósin eru sjálfvirk en bókhaldið ekki. Þegar maður hugsar um hvaða hluti er auðvelt að sjálfvirknivæða þá dettur manni helst í hug að hluti sem fylgja mjög skýru afmörkuðu formi og innihalda mjög regluleg gögn er miklu auðveldara að sjálfvirknivæða en eitthvað þar sem líffræðilegar breytur koma við sögu. Kannski endurspeglar það einhvers konar íhaldssemi umfram gott hóf í því hvernig reikningshald hefur verið stundað. Nú eru alþjóðlegir reikningsskilastaðlar náttúrlega stórir og flóknir og þurfa að vera nákvæmir eðli málsins samkvæmt. En manni dettur í hug að það gætu verið til einhverjar leiðir til að ná að formfesta þetta, einmitt með því að ná í gögn sem eru forskráð, sem ríkið hefur nú þegar aðgang að. Það væri hægt að toga það bara beint inn í sniðmát fyrir ársreikninga þannig að ekki væri alltaf verið að vinna sömu handavinnu aftur og aftur. Nú hef ég lesið einhverja tugi ársreikninga og jafnvel fleiri. Þeir eru allir eins. Þeir líta allir eins út og það er eiginlega tilgangurinn. Þeir eiga að líta eins út.

Nú er ég kannski bara kominn á flug með einhverjar pælingar en mig langar að beina spurningu til hv. þingmanns: Í ljósi þess að minnstu fyrirtækin eru flest og í ljósi þess að öll fyrirtæki þurfa að skila ársreikningi, getur hv. þingmaður kannski hugsað það með mér hversu mikið þjóðhagslegt tap verður af því að við erum ekki með þetta að einhverju leyti sjálfvirknivæddara en það er nú þegar? (Forseti hringir.) Hver er tækifæriskostnaðurinn við það allt? Hann hlýtur að vera töluverður.