150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

ársreikningar.

447. mál
[15:03]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á ólíklegum stað og reyna svo að tengja þetta saman. Ég ætla að byrja á ákveðinni tilgátu sem er að stærðarhagkvæmni í rekstri fyrirtækja sé ágæt og jafnvel eftirsóknarverð en eigi ekki að vera forsenda atvinnuþátttöku. Ástæðan fyrir því að mér finnst þess virði að ræða það í þessu samhengi er að stærðarhagkvæmni fyrirtækja snýr í rauninni að tveimur ólíkum þáttum, annars vegar getu fyrirtækis til þess að pluma sig á markaði og keppa við önnur fyrirtæki, sem er auðvitað það sem þeim er ætlað að gera í frjálsu markaðskerfi, og hins vegar skyldum þeirra gagnvart ríkinu og lögunum. Þá kemur upp það sem við ræddum áðan, við hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, að í lögum eru gerðar kröfur um að öll fyrirtæki geri ákveðna hluti, greiði t.d. skatta, skili ársreikningum og skili ýmiss konar uppgjöri, virðisaukaskatti o.s.frv. Öllum þeim þáttum fylgir einhvers konar vinna og það er bara gott og vel. Það er eðlilegt að við gerum þær kröfur en við verðum kannski að einhverju leyti að skoða hversu mikil vinna fylgir hverri kröfu og hvort sú vinna skalist í hlutfalli við stærð fyrirtækjanna sem um ræðir.

Ég nefndi áðan, og það kom fram á fundi efnahags- og viðskiptanefndar á dögunum, að lög um ársreikninga á Íslandi eru ekki löng. Þau eru ekki flókin þannig séð en alþjóðlegir reikningsskilastaðlar eru nokkur þúsund blaðsíður. Þetta er þess eðlis að fyrirtæki, hversu lítil eða stór sem þau eru, þurfa öll að geta uppfyllt þessa hluti. Auðvitað verða ársreikningar stærri fyrirtækja stærri eftir því en lágmarkið hjá einyrkjum er kannski upp á einhverjar fimm til tíu blaðsíður á meðan ársreikningar hjá stærstu fyrirtækjum heims eru kannski nálægt 100 og 200 blaðsíður í einhverjum tilfellum. Þá er ágætt að hugsa um tilganginn með ársreikningum. Þeir eru auðvitað leið til þess að bæði hluthafar og aðrir geti séð hvernig fyrirtækinu gengur en líka aðferð til að koma í veg fyrir svindl. Þetta eru kröfur sem við gerum til fyrirtækja vegna þess að við viljum að hlutirnir séu rétt gerðir. Það er ekki alveg hlaupið að því að gefa einhvern afslátt af því á grundvelli stærðar og jafnvel þvert á móti. Ef slíkir afslættir væru í boði væri hætt við að fyrirtæki færu jafnvel að stunda einhvers konar eignarhaldsleikfimi, eins og við sjáum t.d. stundum í sjávarútvegi, til að tryggja að hver eining fari ekki yfir ákveðna stærð og helst þannig að það sé leikið á tengslareglur á þann hátt að ekki sé um samstarf að ræða. Það er vel þekkt, meira að segja eru sérfræðingar í skattarétti og öðru ráðnir sérstaklega til fyrirtækja sem hafa burði til þess til að finna leiðir til að besta reikningsdæmin með þeim hætti. Þarna er einmitt eitt dæmi um það hvernig stærðarhagkvæmni er ekki bara fólgin í því að geta framleitt hverja vörueiningu með ódýrari hætti, heldur líka í því að hafa burði til að ráða betri skattalögfræðinga og hafa betri bókhaldara og endurskoðendur sem hafa ekki bara þekkingu á því hvernig á að gera hlutina vel heldur líka í einhverjum tilfellum, og án þess að ég sé ásaka neinn en við vitum að það þekkist, til þess að finna leiðir til að gera hlutina á sem ódýrastan hátt fyrir fyrirtækið. Það er önnur tegund af stærðarhagkvæmni sem leiðir í rauninni af því hvernig lagakerfið í kringum ársreikninga og skatta fyrirtækja og annað er sett upp. Ég er ekki viss um að það sé hægt að laga það. Það þyrfti alla vega einhvern sem er töluvert betur að sér í því en ég til að koma með tillögur að því hvernig ætti að laga það. En mér finnst, þegar við tölum um þessa hluti í nútímanum, einhvers konar leiðarvísi að mögulegri lausn fólginn í því að langflestir ársreikningar langflestra fyrirtækja eru nákvæmlega eins í uppsetningu, í því hvaða liðir eru taldir til, í raun í öllu nema tölunum. Auðvitað er einhver smámunur en í öllu falli eru reitirnir að mestu leyti þeir sömu.

Það hefur komið fram í umfjöllun hjá efnahags- og viðskiptanefnd að ýmislegt er gagnrýnivert við íslensku útfærsluna á þessum lögum. Talað hefur verið um nauðsyn þess að taka IV. kafla laga um ársreikninga til heildarendurskoðunar. Skoðunarmannakerfið hefur verið gagnrýnt og lausatök í eftirliti sömuleiðis. Svo hefur verið sagt, og ég veit ekki alveg hversu langt það nær, að ársreikningar íslenskra félaga séu oft svo lélegir í skilningi alþjóðlegra reikningsskilastaðla að sum erlend endurskoðunarfyrirtæki neiti að taka þá til skoðunar, sem mér finnst mjög áhugavert vandamál. Þá má horfa á umsagnir ýmissa aðila og m.a. kom góð umsögn frá Samtökum iðnaðarins sem fjallaði um hina hliðina á þessu, sem er að eftir því sem við gerum kröfurnar sterkari gerum við hlutina erfiðari fyrir minni fyrirtækin og úr verður togstreita, herra forseti. Markmið mitt með þessari ræðu er að benda á og kannski reyna að hvetja okkur til að gangast við því að slík togstreita sé til og leysa úr henni með einhverjum hætti. Hún er raunveruleg og hún skiptir máli.

Mikið er talað um að skoða hvar stærðarmörkin eru. Fyrrum orkumálastjóri gagnrýndi eitt sinn að stjórnmálamenn væru mjög háðir því að setja allt í þrepaföll vegna þess að þeir skildu ekki hvernig ætti að setja línulegan vöxt eða þaðan af flóknari föll í lög. Við vitum alveg hvað gerist. Þegar sett eru þrep þá hrúgast allir rétt fyrir neðan þrepið og um leið og þeir eru komnir upp fyrir það reyna þeir að hlaupa að næsta þrepi vegna þess að það vill helst enginn fara yfir mörkin og þeir eru jafnvel mjög skapandi í því að finna leiðir til þess að komast ekki upp í næsta þrep nema það sé sérstaklega eftirsóknarvert.

En tæknin er til. Alþjóðlegir reikningsskilastaðlar eru einmitt hannaðir af fólki sem fæst við nákvæmni og skilur mikilvægi þess að hafa hlutina nákvæma. Ég, sem forritari að upplagi, finn mikið til með þessu fólki. Ég ber mikla virðingu fyrir endurskoðendum vegna þess að þeir skilja nákvæmni og eru vanir því að sannfæra fólk um að vera nákvæmt á hátt sem er kannski ekki mannfólki eðlislægur. Mér finnst oft nógu erfitt að vera nákvæmur í samskiptum við tölvur þannig að ég get rétt ímyndað sér hversu erfitt það getur verið. En af því að staðlarnir eru svo nákvæmir þá ætti að vera mögulegt, og væntanlega ekki of mikið mál, að sjálfvirknivæða alla vega stóran hluta.

Við ræddum áðan að auðvitað er mikið af þeim gögnum sem liggja til grundvallar ársreikningum, svo ekki sé talað um skattskýrslur og annað, fyrir í gagnagrunnum hins opinbera. Við vitum að með öflugu átaki fyrir sennilega hátt í áratug síðan voru skil skattskýrslna hjá einstaklingum að mestu leyti sjálfvirknivædd og maður veltir fyrir sér hvort ekki séu einhverjir möguleikar á sjálfvirknivæðingu á ársreikningum sem komi til með auknum rafrænum viðskiptum sem mætti nýta í því samhengi. Þá skiptir auðvitað máli að alþjóðastaðlar séu að fullu rafvæddir, að rafrænt form þeirra sé útbreitt og að fólk nýti sér möguleikana sem eru fyrir hendi á sem bestan veg. Auðvitað munu fyrirtæki koma upp sem búa til bókhaldshugbúnað og annað sem getur gert flókna hlutann, þ.e. að smíða hugbúnaðinn, en við þurfum kannski að laga lögin að þeirri staðreynd að tölvur eru færar um að fara yfir ársreikninga, villuprófa og finna rangfærslur og annað á míkrósekúndum. Ef hægt væri að búa til regluverk sem heimilar litlum fyrirtækjum að gera það innan ákveðinna marka þá væri kannski ekki þörf á því að hafa skoðunarmannakerfið eins og það er í dag. Við gætum jafnvel að einhverju leyti minnkað þörfina á endurskoðun nema þá í einhverjum undantekningartilvikum, með því einmitt að villuprófa alla ársreikninga á örfáum míkrósekúndum, eins og vel er hægt með nútímatækni, og jafnvel að gera samanburð á milli fyrirtækja sem myndi jafnvel leiða í ljós hvort einhverjar frekari brellur væru í gangi varðandi t.d. falið eignarhald, einhvers konar milliverðlagningu eða annað. Þá er afskaplega auðvelt að laga margt af því sem er að gagnvart hinu opinbera varðandi skattundanskot o.fl.

Þetta er allt saman mögulegt vegna þess að gögnin eru skráð rafrænt og staðlarnir eru skýrir. En tvennt vantar til að það gangi upp. Annar þátturinn er að bókhaldskerfin tali sameiginlegt tungumál og tjái sig á hátt sem er hægt að bera saman milli kerfa og annað og þar reiðum við okkur á að alþjóðlegir staðlar um rafvæðingu bókhalds og annað nái sem lengst. En hitt er að til verði lagalegar heimildir sem tryggja að hægt sé að gera það með þeim hætti. Þar koma auðvitað upp mörg álitaefni. Margir eru ekkert allt of hrifnir af þeirri hugmynd að ríkið hafi svona djúpa innsýn inn í rekstur fyrirtækja. Þeir líta jafnvel á rekstur fyrirtækja sem einhvers konar persónuverndarmál. Þó að fyrirtæki séu vissulega lögpersónur eru þau ekki persónur í þeim líffræðilega skilningi sem við leggjum í hugtakið þegar við erum að tala um persónuverndarlög. Engu að síður finnst sumum að fyrirtæki eigi að hafa ákveðið svigrúm til að fela slóð sína. Út frá sjónarmiðum um viðskiptaleyndarmál og annað er kannski að einhverju leyti hægt að koma til móts við þær hugmyndir. Ég er ekki að segja að við eigum endilega að hafa 100% gagnsæi á öllu sem fyrirtæki gera en að því leyti sem við gerum kröfur um gagnsæi fyrirtækja í rekstri í dag til þess einmitt að koma í veg fyrir skattundanskot og annað, ættum við alla vega að geta nýtt það gagnsæi á sjálfvirkan hátt til þess að minnka kostnaðinn hjá þessum fyrirtækjum, hjá þeim 90% lítilla fyrirtækja í flestum Evrópulöndum sem dæmi og ekki síst á Íslandi, og hjá þessum 7% fyrirtækja sem teljast meðalstór í þeim Evrópulöndum. Ég held að hlutfallið sé meira að segja hærra hér vegna þess að stór fyrirtæki á Íslandi eru afar fá. Með því að gera það minnkum við kostnað þeirra og aukum möguleikana á því að koma í veg fyrir hegðun sem við höfum flest komið okkur saman um að sé óæskileg.

Ég veit að ég fór svolítið vítt og breitt en mér finnst þetta mál hið ágætasta. En það var tilefni þess að ég fór að hugsa um hvernig við eigum að horfa á framhald ársreikninga í svona stærðarsamhengi, að tryggja nauðsynlegt gagnsæi í fyrirtækjarekstri, að fyrirtækjarekstur sé heiðarlegur og að leikreglurnar virki, ekki bara fyrir stærstu fyrirtækin sem hafa efni á bestu og færustu skattalögfræðingunum heldur líka öll hin litlu fyrirtækin sem eru að gera mjög flotta hluti og almennt til að reyna að koma í veg fyrir misbeitingu á fyrirtækjaforminu eftir því sem það er hægt.