150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

Kría - sprota- og nýsköpunarsjóður.

711. mál
[17:09]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég ætlaði upprunalega ekki að koma að ræðu um þetta mál á þessu stigi en það eru tvö atriði sem ég held að þurfi aðeins áréttingu, bara til þess að það hafi komið fram. Annað er í sjálfu sér ekki um frumvarpstextann sem slíkan heldur í rauninni atriði sem er nefnt í greinargerð og hitt snýr að skipun stjórnar yfir sjóðnum. Í kafla 3.1 í greinargerð með frumvarpinu stendur, með leyfi forseta:

„Í slíkum samningi eða eftir atvikum hluthafasamkomulagi um stofnun viðkomandi sérhæfðs sjóðs eða sambærilegum samningi er gert ráð fyrir að öðrum fjárfestum í sérhæfða sjóðnum bjóðist að kaupa hlut Kríu á fyrir fram ákveðnum kjörum að ákveðnum tíma liðnum þegar frumfjárfestingartímabili sjóðsins er lokið …“

Í nefndarálitinu var aðeins fjallað um að slík sala samrýmist ekki markmiðum stjórnvalda og tilgangi frumvarpsins. Af því má leiða að efnahags- og viðskiptanefnd sé sammála um að þetta sé ekki endilega gott fyrirkomulag. Það er ástæða til að draga þetta fram alveg sérstaklega vegna þess að fram hafa komið rök um að þetta sé ekki gott. Möguleikarnir í svona tilfelli eru í rauninni tveir, annars vegar að búið sé að festa það að selja megi fjárfestum bréf ríkisins á fyrir fram ákveðnu gengi eins og talað er um í greinargerðinni, með öðrum orðum hugsanlega á undirverði, og hins vegar að hægt sé að fara þá leið að hámarka fjárfestingu ríkisins sem fer svo aftur inn í nýsköpunarumhverfið og þar með leggja frekar áherslu á að styrkja sprotafyrirtæki og sömuleiðis koma í leiðinni í veg fyrir að ríkið skekki samkeppnisstöðu innan markaðarins. Ég nefni þetta vegna þess að það er ákveðin ástæða til að óttast að ef þetta færi þannig að hlutir Kríu væru seldir fjárfestum á þessum fyrir fram ákveðnu kjörum gæti það haft einhverjar neikvæðar afleiðingar í för með sér. Þetta er eins og ég segi ekki í texta frumvarpsins og er því ekki hluti af lögunum. Þetta er í greinargerðinni sem kemur frá ráðuneytinu og mig langar að beina því til væntanlegrar stjórnar Kríu að hafa í huga að þarna er ákveðin hætta á ferðinni og líklegast betra að fara ekki þessa leið og taka frekar hámarksarðsemi inn í Kríusjóðinn og nota hann til að efla nýsköpunarumhverfið. Þetta var annar punkturinn.

Hinn punkturinn snýr að því að samkvæmt frumvarpinu skipar ráðherra fimm manna stjórn Kríu til fjögurra ára í senn. Eins og er lagt upp með þá á að skipa þá stjórn án tilnefningar. Hún hefur mikið vægi vegna þess að Kría er líkleg til að hafa mikla vigt í vísisjóðamyndun á Íslandi. Það gæti verið að stjórnarmenn hafi í rauninni frekar mikið vald til að stjórna því hreinlega hvers konar vísisjóðir verða til, hversu öflugir þeir verða og hafa jafnvel möguleika á því að hafa áhrif á það eftir sinni hentisemi. Mig langar að beina því til hæstv. ráðherra að huga að því að stjórnin verði skipuð á sem dreifðastan og lýðræðislegastan máta þó að heimildin sé kannski nokkuð breið eins og hún er í frumvarpinu. Auðvitað er kannski svolítið seint að koma með þessar athugasemdir núna, ég biðst afsökunar á því. Ég held að þetta séu einföld atriði sem snúa meira að því hvernig sjóðurinn verður rekinn í reynd og minna að frumvarpstextanum og væntanlegum lögum en eru bæði til þess að gera Kríusjóð betri og efla nýsköpunarumhverfið og sprotaumhverfið á Íslandi, sem er auðvitað markmiðið og auðvitað vilja allir ná því markmiði þannig að vonandi verður tekið tillit til þessara ábendinga.