138. löggjafarþing — 117. fundur,  30. apr. 2010.

mat á umhverfisáhrifum.

514. mál
[16:37]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Kannski fyrst vegna þess sem hæstv. ráðherra nefndi hér síðast um eftirlitshlutverk þingsins þá hefur okkur, þrátt fyrir ítrekaðar umræður hér á þingi og það eftirlit sem alla vega við í stjórnarandstöðunni höfum verið að reyna að beita, orðið lítið ágengt með að flýta fyrir ákvörðunum þannig að það væri óskandi að settar væru um þetta einhverjar viðmiðanir.

Ég held að þetta sé líka dálítið spurning um vinnubrögð. Það er kannski orðinn ákveðinn vani að svona hlutir verði að taka ákveðinn tíma, dálítið eins og kjarasamningar. Þegar ég var í samninganefnd ríkisins var það stundum þannig að maður gat náð samningum á fyrsta fundi en það þótti ekki trúverðugt. Það varð að sitja nokkrar nætur í Karphúsinu og klára þetta vegna þess að baklandið hélt þá að búið væri að vinna vinnuna meira til hlítar. Mér leiddust þessi vinnubrögð og hafði oft orð á því að hægt væri að klára þetta á miklu skemmri tíma ef allir legðust á eitt um að breyta vinnubrögðum. Ég set þetta hér inn í umræðuna.

Það sem mér finnst vera mikilvægt kemur hér fram í almennu athugasemdunum, þ.e. að ef gert er ráð fyrir því, og hæstv. ráðherra sér það strax, að þetta muni taka langan tíma, þá ber ráðherra að meta það strax í upphafi og koma þeim sjónarmiðum á framfæri við þá sem um ræðir, að þarna geti verið um lengdan frest að ræða. Ég held að það sé mjög mikilvægt vegna þess að það er enginn að biðja um afslátt á einu eða neinu. Það er mikilvægt líka þegar við erum að huga að erlendum og innlendum fjárfestum. Þegar fólk er að leggja fjármagn í einhverjar framkvæmdir sem þurfa að fara í gegnum umhverfismat þá er enginn að biðja um afslátt af því heldur bara að vita að hverju menn ganga. Ég held að það sé mjög mikilvægt og ég er ánægð með að sjá þetta hér inni í greinargerðinni.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta frumvarp en treysti því að tekið verði á þessum atriðum í starfi nefndarinnar.