139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[14:42]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Hann fór ágætlega yfir ýmislegt í tengslum við þetta frumvarp og hvernig hefði verið betra að hans mati að vinna það og hvernig hefði verið betra að málið kæmi inn í þingið.

Það kom fram hjá hæstv. forsætisráðherra í gær að ekki væri meiri hluti fyrir þessu máli meðal stjórnarflokkanna. Það kom líka fram í máli hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hann væri andvígur málinu. Við umræðuna í gær kom fram að hæstv. innanríkisráðherra gerði miklar athugasemdir við frumvarpið en heimilaði að það yrði lagt fyrir þingið.

Hæstv. forsætisráðherra sagði ítrekað í gær að hún teldi að þegar menn færu að skoða þetta mál og sæju hversu jákvætt og gott það væri mundi það njóta stuðnings í þinginu og forsætisráðherra treysti á að stjórnarandstöðuþingmenn mundu veita málinu liðsinni og styðja það.

Hv. þingmaður fór yfir tilurð frumvarpsins, að það hefði ekki orðið til með samráði heldur væri þetta frumvarp hæstv. forsætisráðherra án alls samráðs við stjórnarandstöðuna og fleiri aðila. Þar sem frumvarpið felur í sér mjög róttækar breytingar á því fyrirkomulagi sem verið hefur við lýði hér varðandi hvernig breytingum á Stjórnarráðinu hefur verið háttað langar mig að spyrja hvort hv. þingmaður telji að mikill stuðningur sé innan stjórnarandstöðunnar við þetta mál eins og það er, hvort hv. þingmaður telji ekki jafnframt að þeim vinnubrögðum sem viðhöfð voru við framlagningu frumvarpsins sé verulega ábótavant og hvernig hann sjái fyrir sér að hægt verði að vinna úr því þannig að víðtæk sátt náist um málið.