139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[14:53]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í tilefni af síðustu orðum hv. þingmanns finnst mér einmitt ástæða til að árétta nákvæmlega þennan þátt, að yfirlýstur tilgangur frumvarpsins er að bregðast við efnahagshruninu og því ástandi sem leiddi til þess. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, meginbreyting frumvarpsins rímar afskaplega illa við niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis og niðurstöður þingmannanefndar einmitt hvað það varðar. Ég spyr hv. þingmann hvort hann deili ekki með mér þeirri skoðun að það sé beinlínis í fullkomnu ósamræmi við niðurstöður rannsóknarnefndar og þingmannanefndar að leggja nú fram frumvarp sem gengur út á að færa völd frá þinginu til ríkisstjórnar, frá einstökum ráðuneytum og ráðherrum til forsætisráðherra, (Forseti hringir.) auka foringjaræði og minnka formfestu í stjórnsýslunni.