139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[14:56]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni greinargott innlegg í málið. Þetta er því miður háð þessu sem við búum nú við, virðulegi forseti, að það er allt í handaskolum í verklagi ríkisstjórnarinnar. Það er handarbakavinna í einu og öllu. (Gripið fram í: Það er nú annað en hjá þér.) Það er alveg sama hvað menn reyna að bera í bætifláka, þetta er því miður staðreynd málsins. Það er unnið í ósamkomulagi, með frekju og yfirgangi og það gengur ekki í svona málum. Öll hefð Alþingis í slíkum málum byggist á því að ná þokkalegu samkomulagi, en það er ekki gert. Það er efnt til ófriðar, og egnt til ófriðar og upplausnar í hverju málinu á fætur öðru.

Ég held að ég hafi heyrt hæstv. forsætisráðherra lýsa því yfir í 57 skipti á síðustu mánuðum að það væri að koma stjórnarfrumvarp í sjávarútvegsmálum, 57 skipti hef ég heyrt. Það er þannig að hæstv. forsætisráðherra er þekktur fyrir það og er sérsvið hans að egna til ófriðar með yfirgangi, geðþótta og tilkynningum út og suður um l langt árabil. Þetta eru stór orð en þau eru væg eins og þau eru sögð. Með því að tala sama máli og kettirnir heldur hæstv. ráðherra hjörð sinni saman, hvað sem það dugar nú til lengdar. (Forseti hringir.)

Ég spyr hv. þingmann: Sér hann einhverjar alvarlegar umbætur í því sem um er fjallað?