139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[15:33]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Ég ætlaði að beina fyrirspurn til hans varðandi pappíra sem leggja átti fyrir sameiginlega þingmannanefnd íslenskra þingmanna og Evrópuþingmanna. Í andsvari hæstv. forsætisráðherra var mjög vitnað í að frumvarpið fæli ekki í sér aukið foringjaræði og forræðishyggju og forsætisráðherra kom inn á að það hefði verið unnið mjög faglega af nefndum og þeim sem starfað hefðu undir forsætisráðuneytinu. Í Dagblaðinu 10. maí 2010, fljótlega eftir að ein af þessum skýrslum kom út, ritaði hæstv. innanríkisráðherra, sem hefur lýst efasemdum um frumvarpið, grein þar sem sagði, með leyfi herra forseta, um þessar skýrslur:

„En ekki er mikið að finna um leiðir til að komast hjá hjarðhegðun og forræðishyggju eða hvernig megi auka gagnsæi og lýðræði hjá hinu opinbera. Þvert á móti er talað um að þörf sé á að „skerpa á forystuhlutverki forsætisráðherra í ríkisstjórn“, aðrir ráðherrar eigi að sitja „í skjóli“ hans og megi ekki orka tvímælis hverjum beri „að knýja á um ábyrgð þeirra eða afsögn þegar ástæða þykir til“. Nefndin virðist ekki vera í vafa um að allt hnígi þarna í sömu átt; yfirvald beri að styrkja.“

Auðvitað talar þarna maður sem hefur kynnst þessu af eigin raun eftir að hafa verið vikið úr ríkisstjórn vegna Icesave-samkomulagsins.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort hann finni fyrir því innan Framsóknarflokksins að frumvarpið njóti mikils stuðnings og meðvinds og hvort mikið samráð hafi verið haft við Framsóknarflokkinn og forustu hans eða þingmenn eftir atvikum þegar frumvarpið var samið og hvort hann telji að í frumvarpinu, eins og það er uppsett núna, (Forseti hringir.) sé brugðist við þeirri gagnrýni sem fram kom í rannsóknarskýrslu Alþingis eða ekki.