139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[15:35]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi hæstv. innanríkisráðherra og greiningu hans á frumvarpinu. Það má taka undir mjög margt af því sem þar kom fram, líklega flest eða allt, og bætist þá ræða hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við það sem ég nefndi áðan. Hæstv. forsætisráðherra virtist ekkert kannast við að neitt af því sem hæstv. ráðherrar hafa gagnrýnt væri að finna í frumvarpinu. Þá hlýtur maður að spyrja: Hefur hæstv. forsætisráðherra ekki kynnt sér eigið frumvarp eða er hæstv. forsætisráðherra að saka eigin ráðherra um að fara með rangt mál, vera að bulla, eins og hæstv. forsætisráðherra orðaði það hér áðan?

Hvað varðar samráð um frumvarpið við Framsóknarflokkinn, eða mig sérstaklega, þá hefur það ekkert verið. Það er óneitanlega sérkennilegt, í ljósi allra yfirlýsinganna, bæði fyrir kosningar og síðustu tvö ár, frá ríkisstjórninni og forustu hennar, um að byggja þurfi á samráði og samstöðu. Svo er lagt fram frumvarp um breytingar á sjálfu Stjórnarráði Íslands og gert algjörlega án samráðs við aðra flokka, líklega án samráðs við marga í stjórnarliðinu.

Loks varðandi tilgang þessa frumvarps og hvernig það er sett fram í tengslum við umræðuna um efnahagshrunið og mikilvægi þess að bæta stjórnsýsluna þá þurfum við að hafa hugfast að krísutímar eru alltaf hættutímar í stjórnmálum. Á slíkum tímum þarf að fylgjast alveg sérstaklega með stjórnvöldum, þeim sem fara með valdið, og gæta þess að þeir noti ekki krísuna, vandamálið, sem afsökun fyrir því að innleiða ranga eða óheppilega stefnu. Það er það sem ég óttast að sé að gerast hér, að verið sé að nota krísuna, efnahagshrunið, til að innleiða mjög varasamar breytingar.