140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

fundarstjórn.

[10:52]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka þann skilning okkar stjórnarliða að við höfum með ýmsum hætti reynt að koma til móts við þau sjónarmið sem reifuð hafa verið í þessari umræðu, lagt á borðið ýmsar hugmyndir sem falið geta í sér lausn á þeim viðfangsefnum sem þingið stendur frammi fyrir í dag og hefur gert undanfarna daga.

Það er rangt og það er leitt að heyra þingmenn stjórnarandstöðunnar væna okkur stjórnarliða um að brjóta samkomulög áður en þau eru gerð og er það ekki þeim viðkomandi þingmönnum til tekna að mæla svo um. En ég ítreka að ýmis sjónarmið hafa verið reifuð um hvernig er hægt að finna lausn á þessu máli og það stendur ekki á okkur stjórnarliðum að vinna að því. Hér er með einföldum hætti hægt að ljúka 2. umr. og menn geta svo sest niður og reynt að komast að lausn um þetta mál og einnig varðandi breytingar á fiskveiðistjórn sem liggja nú fyrir nefndinni.