140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:04]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er almennt fylgjandi því að samráð sé haft við deiluaðila þegar hagsmunaárekstrar eru uppi þótt ég telji það ekki alveg einhlítt. Ég vil hafa samráð við Öryrkjabandalag Íslands þegar breytingar eru gerðar á almannatryggingum eða örorkubótum og við láglaunafólk þegar um er að ræða kjör þess. Þegar kemur hins vegar að því að hækka fjármagnstekjuskatt og hversu langt ég er reiðubúinn að ganga í samráði við fjármagnseigendur þá legg ég ekki að jöfnu öryrkjann eða milljarðamæringinn. Milljarðamæringar andmæltu á sínum tíma hvers kyns breytingum á fjármagnstekjuskattinum og hótuðu því að fara með allar eigur sínar úr landi ef Alþingi dirfðist að hækka fjármagnstekjuskattinn. Þeir æptu á samráð og reyndu að æsa til andófs gegn stjórnvöldum.

Hér er um það að ræða að sjá til þess að eðlilegur, sanngjarn hlutur af arði sem hafa má af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar renni til hennar sjálfrar í gegnum ríkissjóð og sjóði sveitarfélaga sem það mun að hluta til gera samkvæmt þeim tillögum sem hér eru uppi vegna útleigu á aflaheimildum sem fara í gegnum kvótaþing.

Síðan vil ég minna hv. þingmann á að við munum að sjálfsögðu verja þessum fjármunum í þágu samfélagsins alls, bæði hér í þéttbýli og ekki síður á landsbyggðinni. Hafa menn ekki tekið eftir þeim tillögum sem verið hafa til umræðu á Alþingi og í þjóðfélaginu almennt um stórfelldar samgöngubætur, um gerð jarðganga á Austfjörðum, um gerð jarðganga á Vestfjörðum, vegabætur yfir Dynjandisheiði, milljarða í samgöngubætur og milljarða til hagsbóta í íslensku samfélagi í þéttbýli og ekki síður í dreifbýli? Ég vísa því þeim málflutningi á bug (Forseti hringir.) sem hér er uppi, þ.e. að verið sé að ganga á hlut einhvers, (Forseti hringir.) en ég tek undir það að að sjálfsögðu vilja hagsmunaaðilar í sjávarútvegi ekki láta ganga á sinn hlut að nokkru leyti.