140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:10]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. innanríkisráðherra kom aftur upp í pontu og svaraði mér engu um hvernig og hvort ráðuneytið hefði skoðað þessar tillögur, hvaða áhrif það hefði á útsvarstekjur og möguleika sjávarbyggðanna og samfélaganna sem byggja allt sitt á sjávarútvegi og hvort það eigi að bregðast við þessu með því að styrkja Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Ég get dregið þá ályktun að það hafi ekkert verið skoðað. Mér finnst það mjög smekklaust að ríkisstjórnin skuli leggja fram tillögur um einhverjar fyrirhugaðar samgöngubætur og fjárfestingar hingað og þangað áður en niðurstaða er komin í málið og taka fram hjá löggjafarvaldinu sem á eftir að samþykkja veiðigjöld. Óvíst er hvort veiðigjöldin verða samþykkt og hvort þau verða hækkuð þannig að ríkisstjórnin hefur enga hugmynd um úr hvaða fjármunum hún hefur að spila. Engu að síður stígur ríkisstjórnin fram og gerir eins og hæstv. innanríkisráðherra hefur stundum sagt, kastar perlum og eldvatni fyrir fólk.