140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:25]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Við óskuðum eftir því í morgun að hæstv. fjármálaráðherra yrði viðstödd þessa umræðu þar sem við höfum komið fram með fjölmargar spurningar. Ég benti líka á að það eru tíu dagar síðan ég pantaði mér flug austur á Reyðarfjörð þar sem á að vera opnun á viðbyggingu álvers Alcoa í Reyðarfirði og öllum þingmönnum Norðausturkjördæmis var boðið. Vegna þess að þingfundur er hér í dag get ég því miður ekki farið í kjördæmi mitt og verið viðstaddur þann gleðiatburð þegar tugir nýrra starfa verða til í Fjarðabyggð.

En á sama tíma og við í stjórnarandstöðunni förum fram á það að hæstv. fjármálaráðherra Oddný Harðardóttir sé hér og svari spurningum okkar frétti ég að hæstv. ráðherra sé í Fjarðabyggð að vígja nýjan vinnustað Alcoa í Reyðarfirði. Það er ekki hægt að bjóða okkur upp á það að á meðan Alþingi er að störfum og sérstaklega þegar beðið er um að hæstv. ráðherra svari hér fyrirspurnum okkar fljúgi hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) austur á land. Á meðan þurfum við, þingmenn kjördæmisins, (Forseti hringir.) að standa hér og ræða þetta mál. (Forseti hringir.) Ég fer fram á það við frú forseta (Forseti hringir.) að þingfundi verði slitið þannig að við getum þá sótt okkar kjördæmi heim og verið viðstödd þennan atburð.