140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

7veiðigjöld.

658. mál
[15:03]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það vakti athygli mína þegar ég fór yfir umsagnir um frumvarpið að þær voru allar neikvæðs eðlis nema ein sem er úr sveitarfélagi hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, frá Samfylkingarfélaginu í Reykjanesbæ sem mig minnir að það heiti. Ég hef bara ekki átt kost á því að spyrja hv. þingmann, þar sem hún þekkir væntanlega vel til í sínu sveitarfélagi, hvort það sé almenn skoðun í sveitarfélaginu að þetta frumvarp sé eins gott og þar var sagt. Þetta er reyndar þvert á álit allra sérfræðinga sem hafa fjallað um þessi mál. Ég spyr hv. þingmann í fyrsta lagi um það.

Í öðru lagi langar mig að spyrja hv. þingmann hvernig upplifun hennar hafi verið af þeim mótmælum sem áttu sér stað á Austurvelli í þessari viku. Mér hefur fundist sem talsmenn ríkisstjórnarflokkanna hafi talið að þar væri komin fylking sem væri að styðja við frumvarp stjórnarinnar, að það ætti að klára það. Mín upplifun var sú að þarna hafi annars vegar verið dugmiklir einstaklingar úr sjávarútvegi sem hafa unnið þar í mörg ár, margir hverjir af landsbyggðinni, og hins vegar andstæðingar þess frumvarps sem við ræðum hér og vilja í raun og veru ganga miklu lengra í breytingum á kvótakerfinu.

Ég velti þess vegna fyrir mér hvort hv. þingmaður sé mér sammála um að það séu í raun og veru mjög fáir úti í samfélaginu sem styðji það frumvarp sem við ræðum hér. Er þá ekki óeðlilegt að hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans skuli allir sem einn ætla að samþykkja þetta frumvarp umyrðalaust? Við höfum kallað eftir hv. þingmönnum, eins og frægt er orðið, m.a. hæstv. fjármálaráðherra sem nú er í Norðausturkjördæmi á viðburði sem ég hefði gjarnan viljað vera á, en hún sýnir okkur að hún kýs frekar að vera þar en hér. (Forseti hringir.) Skyldur okkar eru hins vegar að vera hér og ræða þetta mál.