144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[14:28]
Horfa

Karl Garðarsson (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ágætu spurningu og þetta er vissulega mál sem er vert að ræða. Ég held að þetta eigi að fara saman, þjónustan við fólkið og síðan hagkvæmni í rekstri ríkisins og hinna ýmsu stofnana. Ég held því að við getum þjappað hlutunum betur saman. Verður stjórnsýslan opnari? Hún getur verið jafn opin og hún er í dag og ekkert síðri en hún er í dag. Það er hægt að afgreiða hluti hraðar, betur en gert er í dag. Flækjustigið verður ekki eins mikið og það er í dag, sem ég held að sé til mikilla bóta, þannig að í heildina litið held ég að þetta sé skref í rétta átt til einföldunar, einföldun er yfirleitt til góðs.

Hins vegar er það alveg rétt það sem hv. þingmaður er að hugsa að ég held, í einstökum tilvikum geti þetta leitt til þess að stjórnsýslan verði kannski ekki eins opin, þetta verði lokaðra, þetta verður allt á sömu hendi, og það geti leitt til þess að málsmeðferð verði ekki eins og hún á að vera. Ég held samt að í langflestum tilvikum sjái menn í hendi sér að ef við erum með 60–70 úrskurðarnefndir úti í bæ er það mjög flókið, dýrt og þungt kerfi fyrir almenning að fara í gegnum. Ég held að þessir hlutir, einföldun á öllu þessu regluverki, hvernig þjónustan er við almenning, séu til góðs í heildina litið.