144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Brynjar Níelsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að spyrja hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur að því hvort hún sé ekki sammála mér um það að samkvæmt stjórnarskránni beri ráðherra ábyrgð á öllum stjórnarframkvæmdum, og hvort hún sé ekki sammála mér um það að staðsetning stofnana sem undir hann heyra séu hluti af stjórnarframkvæmdum. Er þá ekki rökrétt að ráðherra sem ber ábyrgðina fari með það vald að ákveða hvar stofnun er nema um annað sé mælt í lögum? Mér finnst þetta afar einfalt þar sem það er algjörlega og fullkomlega í samræmi við stjórnarskrána að svona sé þessu fyrir komið.

Ég vil líka gjarnan spyrja hv. þingmann að því hvort það hafi ekki verið afar sérstakt þegar þessi almenna lagaheimild var felld úr gildi með lögunum 2011 að ekki skyldi hafa vera minnst á það einu orði að það væri verið að taka þessa almennu heimild af ráðherra, ekki einu orði í greinargerð, ekki einu orði neins staðar. Það finnst mér alveg með ólíkindum, ég verð að segja það.

Þetta er eðlilegur hluti af valdi ráðherra. Hann þarf eftir sem áður alltaf að taka tillit til stjórnsýslulaga við allar breytingar, til laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna o.fl. Hann getur ekki bara gert það sem honum sýnist eftir eigin geðþótta, hann þarf að fara eftir málefnalegum sjónarmiðum o.s.frv. Ég held því að áhyggjur manna af þessu séu fullkomlega ástæðulausar enda er þessi heimild í fullu samræmi við stjórnarskrána og eðlilegt vald ráðherra.