144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:12]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég ætlaði nú einmitt að hafa orð á því hvað hv. þingmaður væri búinn að finna flott og virðulegt orð yfir kjördæmapot, kjördæmavelvildarpólitík, mjög gott orð. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti, ég segi alveg eins og er að ég skil ekki almennilega af hverju á að fella það út úr lögunum að Tryggingastofnun hafi aðsetur í Reykjavík. Það eru nú líklega fáar stofnanir sem jafn margir þurfa að sækja til eins og Tryggingastofnun, og þrátt fyrir allt þá búum við flest á þessu horni landsins, þó að stundum finnist manni, sérstaklega í þessum sal, að við séum svona hálfpartinn fyrir. En ég segi eins og er að ég skil ekki að það sé verið að fella það niður, nema að það eigi að færa stofnunina í Kópavog eða eitthvað svoleiðis.

Við höfum líka reynslu af því að flutningur stofnana gangi vel, er ekki Fæðingarorlofssjóður á Hvammstanga og einhver annar sjóður? Það hefur gengið og gengur vel og þá er það ágætt. En ef það er orðið sérstakt markmið að taka stofnanir úr Reykjavík og flytja þær nauðungarflutningum eitthvert út á land, jafnvel þó að það sé ekki nema í nágrannabæjarfélögin, þá finnst mér vera búið að snúa þessu öllu svolítið mikið á hvolf. Við þingmenn hér í höfuðborginni þurfum kannski aðeins að standa í lappirnar með það og láta að minnsta kosti heyra í okkur að okkur finnst þetta hvorki sjálfsagt né eðlilegt.