144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:48]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir góða ræðu. Það sem er helst sláandi við frumvarpið er tímasetningin og ekki síður að í því er verið að taka í burtu aðhaldshlutverk Alþingis og setja valdið alfarið í hendurnar á framkvæmdarvaldinu. Það er engin leið að tryggja að hlustað sé á allar raddir og samráð haft þegar farið er út í hluti eins og gert var með Fiskistofu, það ferli var sett í gang áður en lagabreytingarnar voru til staðar. En telur hv. þingmaður að ef lög af þessu tagi hefðu verið í gildi þá hefði það ferli getað orðið farsælt? Eða hvað vantar upp á til þess að þessar lagabreytingar séu stjórnsýslulega séð góðar, bara þannig að maður gæti allrar sanngirni?

Ég hef heyrt það frá meiri hlutanum, og í áliti hans er talað það, hversu mikilvægt er að starfsmenn stjórnsýslunnar séu hreyfanlegir. Er þetta kannski hið allra mesta mál og nauðsynlegt að láta ekki hið þinglega ferli þvælast fyrir einfaldri stjórnsýslu framkvæmdarvaldsins?