144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:22]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og ég verð að viðurkenna að ég deili áhyggjum hennar. Mig langar að nota þetta seinna andsvar til að eiga orðastað við hv. þingmann um 8. gr. frumvarpsins. Þar segir, með leyfi forseta:

„Forsætisráðuneytið gefur stjórnvöldum ráð um túlkun siðareglna þegar eftir því er leitað, stendur fyrir fræðslu um þær innan Stjórnarráðsins og fylgist með að þær nái tilgangi sínum.“

Með þessu frumvarpi ætlar hæstv. ráðherra að leggja niður nefnd um siðferðisleg viðmið fyrir stjórnsýsluna en taka verkefni hennar að sér sjálfur.

Spurning mín til þingmannsins er einfaldlega þessi: Telur hv. þingmaður þessa ráðstöfun líklega til að auka traust almennings á stjórnvöldum?