144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[21:09]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég kem fyrst og fremst hingað upp til að lýsa því yfir að ég undrast það að ekkert hefur miðað í því að ræða hvernig við ætlum að ljúka þinghaldi. Nú er búið að boða þingfund á morgun kl. 10, nefndafundir eru að sjálfsögðu ekki samkvæmt nefndatöflu þannig að alger ófyrirsjáanleiki ríkir um framhald starfa Alþingis.

Hér er ítrekað búið að biðja um að reynt verði að setja störf þingsins í einhvern fastan ramma þannig að þingmenn viti hverju þeir ganga að þó að við vitum að sjálfsögðu ekki hve lengi þinghaldið teygist; við erum heldur ekki að biðja um að fá að vita það. Það eru vonbrigði með að þau samtöl sem áttu sér stað í gær, á fundi formanna flokkanna, skuli ekki hafa skilað neinum árangri og hér sé ekki einu sinni skipulagt kaos heldur óskipulagt kaos í þingstörfum.

Ég lýsi vonbrigðum mínum með stöðu mála því að hér væri hægt að vinna á talsvert skilvirkari hátt ef vilji væri fyrir hendi.