144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[21:44]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, það er alveg rétt að eðli stofnana er ólíkt og það er ekkert endilega allar stofnanir sem geta verið með starfsmenn úti á landi meðan aðrar gætu þess vegna verið með starfsmenn eingöngu úti á landi þar sem þjónustan felst kannski mest í að svara fólki sem hringir í gegnum síma eða tölvupóstsamskipti eða annað því um líkt. Ég þekki það vel að vera útibú á Akureyri, eini starfsmaðurinn þar, og allir hinir voru í Reykjavík þegar ég vann hjá Neytendasamtökunum. Það gekk mjög vel vegna þess að allir voru einfaldlega innstilltir á það og samskiptin voru mjög mikil í gegnum í síma, msn og spjallforrit. Þá sat hver inni á sinni skrifstofu og eitthvað var ákveðið bara í tölvunni.

En það er rétt að þeir sem eru úti á landi vilja gleymast, ég þekki það líka. Maður þarf svolítið að sækja samskiptin því það er mjög auðvelt að einangrast. Það fer svolítið eftir stemningunni og þeir sem eru úti á landi þurfa líka að vera duglegir við það. Þannig að ætli við séum ekki bara sammála um það.