144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[21:48]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það skýtur auðvitað skökku við að í ljósi þess að hér hefur hæstv. forsætisráðherra til að mynda átt í samskiptum við Ríkisendurskoðun og umboðsmann Alþingis eins og hv. þingmaður kom að. Núna er vitnað í frumvarpinu til þess að það þurfi bara að eiga gott samstarf við þessar stofnanir sem eigi að síður hafa mátt þola hnútukast af hálfu hæstv. forsætisráðherra. Það er vísað til þess að ekki sé þörf á sérstakri nefnd og þessu verði bara sinnt úr ráðuneytinu. En það er nú svo að ýmsar stéttir hafa siðareglur og málið kann að vera sérstaklega viðkvæmt fyrir stjórnsýsluna því ráðuneytin eru auðvitað í senn stofnanir sem eiga að sinna hlutlausum verkefnum og vinna í því að útfæra og fylgja eftir pólitískri stefnu. Þarna kunna því vissulega að koma upp mjög mörg álitamál.

Ég held að við hv. þingmaður séum sammála um að full þörf sé á slíkri nefnd. Ég spyr hv. þingmann: Hverjar telur hún vera ástæður þess að þetta er lagt til, líka í ljósi þess að nefndin fékk eingöngu þriggja ára reynslutíma? Ef marka má fundargerðir (Forseti hringir.) hafði nefndin nóg að gera á þeim tíma, en eigi að síður er því haldið hér fram að það sé engin sérstök (Forseti hringir.) þörf á henni.