144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[23:10]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum breytingu á lögum um Stjórnarráðið þegar klukkan er að ganga 12. Það er svolítið skrýtið að vera að tala um svona mál inn í nóttina en þannig er nú það. Mér finnst líka svolítið einkennilegt að þetta mál sé haft í forgangi þegar við erum komin fram yfir starfsáætlun, að við séum að leggja vinnu í þetta mál sem mér hefði þótt að væri ekki mikill þrýstingur á að klára þegar eitt af því stóra sem þetta mál inniheldur, heimildir ráðherra til að flytja stofnanir án þess að bera það undir Alþingi, að lögfesta slíka heimild þegar ráðherra hefur dregið í land með áform sín varðandi flutning Fiskistofu, a.m.k. þau áform sem voru í upphafi, að flytja þá stofnun með manni og mús til Akureyrar. Nú hefur hæstv. ráðherra dregið í land þannig að ekki er gerð sú krafa á starfsmenn stofnunarinnar að flytja. Eingöngu forstjóri stofnunarinnar flytur til Akureyrar. Hæstv. ráðherra er reyndar ekki hættur við að fylgja málinu eftir en hyggst gera það með öðrum hætti en upphafleg áform voru um. Tel ég það vel og kem seinna í ræðunni inn á viðhorf mín til flutnings opinberra stofnana út á land og með hvaða hætti best sé að styrkja starfsemi opinberra aðila úti á landi og fjölga þar störfum í opinbera geiranum.

Það sem ég ætlaði fyrst og fremst að rekja úr þessu frumvarpi er sú heimild ráðherra að ákveða staðsetningu stofnana. Hér eru lagðar til breytingar á Stjórnarráðinu sem miða að því að auka sveigjanleika framkvæmdarvaldsins við að skipuleggja störf. Heimilt verður að setja á fót starfseiningar og ráðuneytisstofnanir innan ráðuneytisins og horft er til þess að sameina rekstur ráðuneytisins og einstakra stjórnsýslustofnana sem fái stöðu ráðuneytisstofnunar en verði ekki sérstakt stjórnvald í stjórnarfarslegu tilliti. Það kemur ágætlega fram í nefndaráliti minni hlutans að aðsetur hverrar stofnunar fyrir sig skiptir miklu máli, þær hafa oftar en ekki fest rætur á ákveðnum svæðum. Það á líka við um starfsfólkið. Hver stofnun er fyrst og fremst sá mannauður sem tilheyrir henni, það sem hún byggir á, sá mannauður sem hefur vaxið og dafnað innan hennar.

Önnur viðhorf eru uppi þegar verið er að setja algerlega nýja stofnun á fót. Menn hafa þá meiri möguleika á að staðsetja hana annars staðar en nýjum stofnunum er samt oftar en ekki komið fyrir á höfuðborgarsvæðinu. Ég tel að það þurfi að byggja á málefnalegum rökum sem á alveg jafnt við þegar menn segja að ekki sé hægt að hafa einhverja stofnun úti á landi en þá verður það líka að byggja á málefnalegum rökum. Með því að færa þetta vald í hendur ráðherra er verið að styrkja framkvæmdarvaldið á kostnað löggjafarvaldsins og ég tel það mjög slæmt og í raun og veru ekki gott fyrir það verkefni sem ég tel afar brýnt, að við vinnum að því að fjölga opinberum störfum úti um land.

Það hefur verið mikil tilhneiging til þess að það hvernig pólitískir vindar blása hverju sinni ráði því hvar stofnanir lenda. Mér finnst það ekki heilbrigt og hvorki lýðræðislegt né eðlilegt þegar við horfum til þess hvernig við viljum byggja upp innviði Íslands, ef við horfum yfir allt landið, að það eigi að vera undir ráðherraræði og handahófskennt hvar einhverjar stofnanir eða verkefni og útibú lenda. Mér finnst mjög eðlilegt að það sé rætt á ýmsum vettvangi eins og þá innan byggðaáætlunar og Byggðastofnunar. Það á ekki bara að vera hjá framkvæmdarvaldinu hverju sinni, hjá viðkomandi ráðherra. Mér finnst það stærri ákvörðun en svo að það eigi að einblína á það og tel það ekki málinu til framdráttar, að stuðla að fjölgun opinberra starfa úti á landi, að ráðherra ætli að sitja á þessari ákvörðun til eða frá hvort einhver stofnun sé staðsett úti á landi eða ekki. Hin mikla umræða um Fiskistofu hefur sett ljótan blett á þá baráttu sem hefur kannski verið fyrst og fremst hjá landsbyggðarþingmönnum en sem betur fer eigum við líka marga hauka í horni á höfuðborgarsvæðinu sem hafa skilning á því að það er ekkert náttúrulögmál að allar stofnanir séu á höfuðborgarsvæðinu, langt í frá, og ég tala nú ekki um þegar tæknin býður upp á að það sé hægt að eiga góð samskipti burt séð frá vegalengdum og það sé hægt að hafa miklu meira flæði á milli stofnana burt séð frá staðsetningu.

Landsbyggðin hefur goldið fyrir það að fá fyrst og fremst til sín störf þegar stofnanir á höfuðborgarsvæðinu hafa sett niður útibú úti á landi, þá hefur oftar en ekki verið um eitt eða í mesta lagi tvö störf að ræða. Það er svo auðvelt að kippa þeim störfum til baka án þess að sérstaklega miklir sviptivindar blási innan þessara veggja. Fólk í þeim störfum á sér ekkert endilega sterka málsvara á Alþingi og það fólk getur líka hrakist burt frá viðkomandi byggðarlagi og þurft að rífa sig og sína fjölskyldu upp með rótum. Við skulum ekki gleyma því. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að leitað sé allra leiða til að ná þessari umræðu inn á Alþingi, koma henni í faglegan farveg og að tilflutningur starfa, hvort sem hann er frá Reykjavík eða til Reykjavíkur, fái efnislega og faglega umræðu og rökstuðning, að þetta sé ekki handahófskennt. Mér finnst ekki að það eigi að vera eitthvert lögmál að allar stofnanir skuli staðsettar á höfuðborgarsvæðinu og hitt þurfi að taka sérstaklega fyrir, þ.e. ef þær eru staðsettar annars staðar. Það ber að horfa til réttinda starfsfólksins, faglegra þátta, kostnaðar og fleiri þátta sem verða alltaf að liggja undir þegar þetta stóra mál er til umræðu.

Þingmenn hafa komið inn á flutning starfa sem var á sínum tíma undir verkefni sem mig minnir að hafi kallast opinber störf án staðsetningar. Miklar væntingar voru bundnar við það verkefni og skiluðu sér þó nokkur störf. Ég held að tilhneigingin sé sú sama í öllum landshlutum, maður heyrir sömu sögur frá þingmönnum annarra kjördæma sem þekkja vel til. Ég þekki betur til í mínu kjördæmi, auðvitað sérstaklega á Vestfjörðum, og það er eilíf barátta í fjárlögum hvers árs á Alþingi og líka barátta þar sem stofnanir þurfa ekkert sérstaklega að bera undir Alþingi hvernig þær haga tilfærslum sínum á störfum milli landshluta þar sem útibú eru. Þetta er eilíf barátta sveitarfélaga og sveitarstjórna við að halda einu starfi hér og einu starfi þar. Þess vegna er ekkert óeðlilegt við það að landsbyggðin þar sem kjarnasvæði eru horfi til þess að hún geti haft stofnanir sem eru stoðir og fleiri starfsmenn en einn eða tvo til að byggja þá í kringum og að háskólamenntað fólk geti haft möguleika á að setjast að á þessum svæðum. Það eru strax margfeldisáhrif þegar slíkt er. Þess vegna er ekkert óeðlilegt að það sé keppikefli sveitarfélaga að fá til sín opinbera starfsemi jafnt og einkastarfsemi og atvinnuuppbyggingu með þeim hætti vegna þess að það er oft meiri stöðugleiki þegar það tekst. Við höfum fjölda dæma um að slíkt hefur tekist alveg ljómandi vel.

Þingmenn hafa haft orð á því að Atvinnuleysistryggingasjóður er á Skagaströnd, skrifstofa Fæðingarorlofssjóðs á Hvammstanga og Skógræktin á Héraði. Við þekkjum Landmælingar Íslands á Akranesi og burt séð frá hæstaréttardómnum hefur sú starfsemi dafnað mjög vel þar. Byggðastofnun er á Sauðárkróki og þannig mætti áfram telja. Þegar einhver reynir að taka til sín vald með ráðherraræði eins og er í þessu frumvarpi setur það slæmt orðspor á baráttu þingmanna fyrir fjölgun opinberra starfa úti á landi og líka þau sveitarfélög sem vilja styrkja grunnstoðir atvinnulífsins í sínu sveitarfélagi þegar þau bjóðast til að taka við stofnunum, verkefnum eða starfsemi, hvernig sem það er, þegar menn ganga svona gróflega fram eins og gert var þegar hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ætlaði með handafli að knýja á um að flytja Fiskistofu til Akureyrar. Ég segi eins og sagt hefur verið hérna, ég tel ekkert að því að þessar stofnanir, hvort sem það er Fiskistofa eða einhverjar minni stofnanir, geti haft lögheimili annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu og hér sé þá öflugt útibú sem sinnir þeirri þjónustu sem er auðvitað þar sem mestur fjöldi landsmanna býr. Þetta getur virkað á báða bóga og auðvitað eru sumar lykilstofnanir sem eðlisins vegna verða að vera á höfuðborgarsvæðinu. Stundum virðist mér í umræðunni að þetta sé eitthvert náttúrulögmál og allt fari á hliðina ef einhverjar breytingar verða. Mér finnst þurfa að greina þarna á milli hvernig staðið er að þessu og hver tekur þessa ákvörðun. Það er ýmislegt hægt að gera ef vilji er fyrir hendi og vel staðið að verki. Mér finnst það ekki mega gleymast í þessari umræðu.

Hér er ýmislegt annað undir líka og eitt af því sem hefur verið til umræðu varðar siðanefnd, að hún verði lögð niður og sett inn í forsætisráðuneytið. Mér finnst alveg með ólíkindum að menn ætli að gera slíkt. Samhæfingarnefnd hefur verið að störfum um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna og ég tel það mjög brýnt fyrir okkar samfélag sem stendur á ákveðnum tímamótum þar sem unnið er að því að ná aftur trausti almennings til stjórnsýslunnar, ég tala nú ekki um Alþingis og þessara stofnana sem því miður hafa hrunið mikið í trausti. Við erum að vinna okkur upp sem við þurfum að gera sem samfélag og þá er ákveðið að hræra svona í þessu. Næg verkefni virðast vera hjá þessari samhæfingarnefnd sem að kemur fjöldi aðila úr ólíkum áttum. Það er verið að tala um að forsætisráðuneytið taki að sér þetta verkefni og ég spyr bara: Í hvaða skúffu á það að vistast í forsætisráðuneytinu? Ég tel engan rökstuðning fyrir þessu eins og kemur fram í nefndaráliti minni hlutans og það liggur ekkert ljóst fyrir hvað menn ætla sér með þessum breytingum annað en að þessi samhæfingarnefnd var sett af stað á síðasta kjörtímabili og það pirri hæstv. ríkisstjórn að vinna áfram með verk sem fyrri ríkisstjórn kom á laggirnar og hafði bara mikinn tilgang og er eitt af þeim tækjum sem við þurfum að hafa til að vinna aftur traust í samfélaginu.

Að lokum vil ég segja að mér finnst að sumu leyti alveg eðlilegt að við vinnum að þessu máli varðandi sveigjanleika innan ráðuneyta og annarra stofnana undir Stjórnarráðinu, að menn hafi ákveðinn sveigjanleika þó að réttindi og skyldur starfsfólks þurfi alltaf að harmónera vel í því sambandi. Ég óttast það sem kemur hér fram, að í þessu skyni sé lagt til að í lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins verði bætt ákvæði um heimildir til flutnings starfsfólks milli stjórnvalda án þess að störfin séu auglýst laus til umsóknar. Mér finnst þetta varhugavert þar sem við gerum alltaf kröfu um aukið gagnsæi, að ekki sé neinn klíkuskapur á ferð og hæfasta fólkið fái störf hjá hinu opinbera. Það á auðvitað að vera regla alls staðar og ég er ekki nógu sátt við þá ætlan sem kemur fram þarna um hvað þetta muni þýða fyrir réttindi starfsmanna í opinbera geiranum.