145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að taka undir pistil sem Björgvin Guðmundsson skrifar um kjör aldraðra. Hann hefur verið baráttumaður fyrir bættum kjörum aldraðra lengi og ég get tekið undir pistla hans að mestu leyti. Hann segir, með leyfi forseta:

„Ríkisvaldið skammtar öldruðum og öryrkjum naumlega með annarri hendi og tekur til baka hluta með hinni í skatta þannig að eftir verður hungurlús sem ekki er unnt að lifa af hjá þeim sem aðeins hafa tekjur frá almannatryggingum. Í Noregi er lífeyrir aldraðra skattfrjáls og auðvitað á það að vera eins hér. Einhleypur eldri borgari á Íslandi hefur 207.000 kr. á mánuði eftir skatta frá Tryggingastofnun, en sá sem er í hjónabandi eða sambúð hefur 185.000 kr. eftir skatta á mánuði. Það sér hver maður að ekki er unnt að lifa mannsæmandi lífi af þessum upphæðum. Einhleypingurinn verður að greiða af lífeyrinum 40.000 kr. í skatt og sá sem er í sambúð eða hjónabandi verður að greiða 27.000 kr. Alþingi og ríkisstjórn verður að taka á sig rögg og stórhækka lífeyri þessara hópa.“

Svo segir hann, sem ég er nú ekki alveg sammála:

„Það er stutt eftir af þinginu og það á að kjósa í haust. Þetta verður að gerast hratt fyrir kosningar.“

Ég treysti ekki þessum flokkum til að framkvæma þessa stefnu. Þess vegna verður að kjósa strax en ekki eftir ár, eins og hv. þingmaður talaði um hér á undan mér. Það verður að kjósa hratt því að lífskjör í landinu fara hríðversnandi fyrir aldraða, fyrir öryrkja, fyrir unga fólkið. Það er verið að hlífa hátekjufólki í landinu með því að lækka á því skatta meðan verið er að merja skatta út úr gömlu fólki sem fær 207.000 kr. á mánuði, eða 185.000 kr. Hvers lags er þetta?

Þetta sýnir forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Hún er ekki í þágu aldraðra og öryrkja sem hafa litlar tekjur eða í þágu ungra Íslendinga.


Efnisorð er vísa í ræðuna