145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Í skjóli öflugs sjávarútvegs hefur nýsköpun og tækni fleygt fram í landinu. Við sjáum það um allt land. Afleidd störf í greininni eru mörg og greininni sjálfri hefur fleygt fram og í dag er hún sjálfbær og skilar góðum arði. Sjávarútvegur á Íslandi er drifinn áfram af framsýnu og dugmiklu fólki með metnað og trú á framtíðina. Í dag eru þrjú uppsjávarskip við tilraunaveiðar á Reykjaneshrygg á kostnað útgerðarinnar, vinnslustöðvarinnar og Ísfélagsins í Vestmannaeyjum. Skipin eru Huginn, Heimaey og Ísleifur VE. Vísindamenn meta það svo að ókannaðir fiskstofnar í djúpum hafsins geti verið gríðarleg uppspretta á próteinþörf heimsins. Tölur upp í 10 milljarða tonna hafa heyrst, (Gripið fram í.) byggðar á takmörkuðum rannsóknum, en enginn veit hið rétta því að rannsóknir eru litlar sem engar. Matarkista heimsins er nú kannski ekki opnuð enn. Vísindamenn Hafrannsóknastofnunar segja að suður allan Reykjaneshrygg liggi gríðarlegt magn af fiski. Þeir hafa gert tilraunir til að veiða en þeir hafa ekki haft réttu veiðarfærin sem þarf að hanna og stilla fyrir þessar rannsóknir. Bergmálsmælingar sýna hins vegar að gríðarlega mikið magn af fiski er þar á ferð. Augljós er þörf á umfangsmeiri rannsóknum áður en veiðar geta hafist. Kostnaður útgerða þeirra skipa sem eru á veiðum, á flotveiðum suður allan Reykjaneshrygg, er um 1,5 millj. kr. á dag. Heildarkostnaður við átta til tíu daga túr er því 12–15 millj. kr., í heildina geta þetta orðið allt að 45 millj. Áhöfn á hverju skipi eru tíu karlar. Þegar og ef veiði verður af þeim toga sem unnið er að, að unnt sé að nýta aflann, á eftir að aðlaga allan búnað um borð í skipunum, löndunar- og geymslubúnað. Síðan á eftir að skoða afurðir sem verða líklega fyrst um sinn mjöl og lýsi. En verður hægt að nýta þetta með öðrum hætti? Það á algerlega eftir að rannsaka.

Virðulegi forseti. Hér eru rannsóknir sem eiga eftir að taka þrjú til átta ár. Hvernig eigum við sem þjóð að nálgast þetta verkefni? Ef útgerðinni mistekst (Forseti hringir.) ber hún allan kostnaðinn. Ef henni heppnast verður mikilvægt að skattleggja þá nýju veiðistofna (Forseti hringir.) og þáttur frumkvöðlanna því fljótt gleymdur. Eða viljum við skapa umgjörð þar sem atvinnulífið tekur áhættu, leggur fjármuni í rannsóknir og uppsker ef gæfa og kunnátta fara saman?


Efnisorð er vísa í ræðuna