135. löggjafarþing — 117. fundur,  3. sept. 2008.

stefna ríkisstjórnarinnar í virkjana- og stóriðjumálum.

[15:35]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mikil er orðin örvænting Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þegar þeir standa hér í ræðustól Alþingis og kalla og hrópa eftir atkvæðum út í samfélagið.

Þessi umræða hefur sannfært mig um að ríkisstjórnin er á réttri braut í þessum efnum. Annars vegar erum við sökuð um að bregða fæti fyrir atvinnuuppbyggingu þegar ákvarðanir eru teknar um umhverfismat og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson er stórhneykslaður á þessum langa kafla um umhverfismál í stjórnarsáttmálanum. Á hinn bóginn talar Vinstri hreyfingin – grænt framboð um kosningasvik og það eina sem þingmenn Samfylkingarinnar sjái sé ál, ál, ál.

Þessi umræða frá hvorum sínum öfgunum hér í salnum hefur sannfært mig um að við erum á réttri braut. Við erum nefnilega á þeirri braut að forða þjóðinni frá því að klofna í herðar niður, klofna í tvær fylkingar um hvert einasta verkefni á sviði virkjana eða annarra stórframkvæmda hér á landi eins og við höfum séð á undanförnum árum og áratugum. (Gripið fram í.) Við ætlum koma þjóðinni út úr því ástandi með því að setja hér skýra ramma, með því að flýta gerð rammaáætlunar sem mun líta dagsins ljós í lok næsta árs þar sem verður forgangsraðað þeim verkefnum sem við ætlum að ráðast í.

Ég er ekki reiðubúin til, sem mér heyrist reyndar að Vinstri hreyfingin – grænt framboð vilji gera, að láta þjóðina klofna aftur og aftur í tvennt í framtíðinni vegna þess að hingað til hafa verkefnin verið valin með tilviljanakenndum hætti. Ég held að Vinstri hreyfingin – grænt framboð vilji hafa ástandið svona áfram. Hún byggir tilveru sína á þessum deilum.(Gripið fram í.) Hún byggir tilveru sína á þessum deilum. (Gripið fram í.) Heyra má að menn verða órólegir vegna þess að þetta er staðreynd. Þetta er staðreynd og hún byggir á þessum deilum. (Gripið fram í.)

Orkuauðlindir okkar eru gríðarlega mikilvægar og þær eru mikil náðargjöf fyrir okkur Íslendinga. Það er því mikilvægt að við höfum skarpa sýn á það hvernig við ætlum að nýta þessar auðlindir og til hvers við nýtum þær. Það er eitt stærsta verkefni sem þessi ríkisstjórn ræðst í á þessu kjörtímabili, að móta hér alvöruorkupólitík. Alvöruorkupólitík sem tekur mið af nútíð og framtíð, orkupólitík sem tekur mið af skynsamlegri nýtingu og náttúruvernd og af uppbyggingu fjölbreyttari stoða í atvinnulífinu. Þetta er kjarni þess sem þessi ríkisstjórn er að gera, öfgalaus stefna. Stefna sátta. (Gripið fram í.)

Ég leyfi mér að fullyrða að aldrei hefur nokkur ríkisstjórn tekið jafnstór skref til þess að koma orkuöflun og orkunýtingu okkar Íslendinga í gagnsæjan, skynsamlegan og réttlátan farveg og akkúrat sú sem nú situr. Það hefur heldur engin ríkisstjórn, hvorki fyrr né síðar, ekki einu sinni sú ríkisstjórn sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, upphafsmaður þessarar umræðu, sat í, gefið náttúrunni jafngóð spil á hendi og þessi ríkisstjórn. Það hefur engin ríkisstjórn hingað til tekið og veitt náttúrunni jafnmikinn og góðan umbúnað eins og þessi ríkisstjórn er að vinna að. Þetta vita hv. þingmenn og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson veit þetta jafn vel og ég vegna þess að hann studdi þá ríkisstjórn sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sat í. Þar voru umhverfismálin ekki tekin jafnföstum tökum og þau eru nú. (Gripið fram í.)

Eins og menn vita (Gripið fram í.) hefur hin nýja orkupólitík sem nú er verið að móta, hin nýja, skynsamlega orkupólitík, (Gripið fram í.) tekið mið af náttúruvernd og Fagra Ísland skilaði sér með mjög skörpum og skýrum hætti inn í stjórnarsáttmálann (Gripið fram í.) og inn í alla vinnu þessarar ríkisstjórnar og stefnumótun.

Virðulegi forseti. Ég tel eftir þessa umræðu og er enn og aftur sannfærð um það að við erum að móta hér skýran og skarpan ramma (Forseti hringir.) sem lætur náttúruna njóta vafans en býr jafnframt til sátt í þjóðfélaginu um nýtingu orkuauðlindanna.