138. löggjafarþing — 117. fundur,  30. apr. 2010.

orlof húsmæðra.

77. mál
[17:00]
Horfa

Flm. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um afnám laga um orlof húsmæðra, nr. 53/1972, með síðari breytingum. Fyrsti flutningsmaður þessa frumvarps er hv. varaþingkona Samfylkingarinnar, Guðrún Erlingsdóttir, sem lagði málið fram hér í þinginu á haustdögum. Meðflutningsmenn eru sú sem hér stendur auk hv. þingmanna Ólínu Þorvarðardóttur, Magnúsar Orra Schram, Jónínu Rósar Guðmundsdóttur og Sigmundar Ernis Rúnarssonar.

Frumvarp þetta er mjög einfalt í sniðum. Það er tvær greinar, um að fella eða afnema lög um orlof húsmæðra og um að lögin skuli þegar öðlast gildi verði þau afgreidd og samþykkt frá Alþingi.

Frumvarpið á sér nokkra forsögu og orlof húsmæðra á sér nokkuð langa sögu, a.m.k. hálfrar aldar sögu hér á Íslandi, en orlof húsmæðra var fyrst ríkisstyrkt árið 1958 þegar sérstök fjárveiting var samþykkt vegna orlofs og sumardvalar húsmæðra frá barnmörgum heimilum. Þá hafði verið talað svo lengi fyrir slíku orlofi, í einhverja áratugi, og segja má að tilgangur laganna hafi verið að lögfesta viðurkenningu á þjóðfélagslegu mikilvægi ólaunaðra starfa og veita húsmæðrum orlofsréttindi líkt og launþegum.

Það má með sanni segja að á þeim tíma þegar lögin voru sett hafi húsmæðraorlof verið mikið þjóðþrifamál og í raun mikið réttindamál fyrir konur á Íslandi sem á þeim tíma, fyrir 50 árum, voru velflestar heimavinnandi húsmæður og margar hverjar ráku stór heimili og unnu sér ekki inn nein lífeyrisréttindi vegna ólaunaðrar vinnu sinnar eða vinnu sem aldrei var beinlínis metin til fjár af samfélaginu. Þó var reynt að koma til móts við þessar konur með orlofi húsmæðra þannig að þær gætu tekið eitthvert frí og fengið orlofsgreiðslu til þess að hvíla sig og endurnæra.

Hins vegar hafa orðið gríðarlegar breytingar á íslensku samfélagi frá því að lögin voru sett 1958 og þarf varla að fara sérstaklega yfir allar þær breytingar hér í þessum sal, það þekkja allir hv. þingmenn. Þorri íslenskra kvenna er á vinnumarkaði, vinnur utan heimilis ásamt því að vinna á heimili sínu eins og vonandi flestir íslenskir karlmenn, sem eru líka að stærstum hluta á vinnumarkaði, og aðstæður eru allt aðrar en þær voru fyrir rúmum 50 árum.

Það er líka vert að hafa í huga að nú, eins og framkvæmd þessara laga hefur verið að undanförnu, hefur orlofið staðið jafnt þeim konum til boða sem starfa heima við eða eru á almennum vinnumarkaði og því hefur verið um að ræða niðurgreiðslur orlofs fyrir ákveðinn hóp samfélagsins, þ.e. konur sem veita eða veitt hafa heimili forstöðu en ekki körlum í sömu stöðu. Það hafa orðið miklar breytingar, eins og hér hefur verið sagt, og m.a. má benda á að Jafnréttisstofa var spurð af Vestmannaeyjabæ, að frumkvæði Guðrúnar Erlingsdóttur, 1. flutningsmanns þessa frumvarps, að því árið 2007 hvort ekki væri rétt að leggja húsmæðraorlofið niður. Svar Jafnréttisstofu var á þá leið að hún teldi líklegt að lög um orlof húsmæðra teldust til brota á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þó áréttaði stofan að það væri að sjálfsögðu hlutverk löggjafans að taka afstöðu til þess hvort afnema ætti umrædd lög.

Flutningsmenn þessa frumvarps telja ljóst að lög um orlof húsmæðra fari í bága við lög um jafna stöðu karla og kvenna og í raun gegn grundvallarreglum íslenskrar stjórnskipunar. Einnig er á það bent í greinargerð frumvarpsins að sú breyting hafi verið gerð árið 1978, fyrir rúmum 30 árum, að sveitarfélög ein greiði til orlofs húsmæðra sem nemur 100 kr. á hvern íbúa sveitarfélags. Þetta gerir umtalsverðar upphæðir fyrir mörg sveitarfélög. Þessi upphæð hefur reyndar tekið breytingum í vísitölu, var árið 2009 82.21 kr. á íbúa. Þetta er drjúgur skildingur, ekki síst fyrir sveitarfélög í því árferði sem nú er. Þó að það séu kannski ekki aðalrökin fyrir afnámi laganna er það þó svo að ég hef orðið þess vör við undirbúning flutnings þessa máls fyrir hönd Guðrúnar Erlingsdóttur, að sveitarstjórnarmenn úr öllum flokkum og um allt land eru mjög áhugasamir um að þessi lög verði afnumin enda séu þau í raun tímaskekkja. Og hvað varðar aðstoð eða niðurgreiðslur eða félagslega aðstoð til íbúa í sveitarfélögunum telja sveitarstjórnarmenn að afnám þessara laga gefi sveitarstjórnum einfaldlega meira svigrúm til að veita fé í þau verkefni, félagsleg eða önnur, sem sveitarstjórnarmenn á hverjum stað telja brýnust.

Að lokum vildi ég segja að það er alls ekki ætlun flutningsmanna þessa frumvarps að gera lítið úr þeim góðu og miklu félagslegu áhrifum sem orlofsferðir húsmæðra hafa haft fyrir þær konur sem þær hafa farið. Verði lögin afnumin geta orlofsnefndirnar haldið áfram að skipuleggja ferðir kjósi þær svo. Hins vegar yrði þátttaka sveitarfélaganna í greiðslu eða niðurgreiðslu kostnaðar valkvæð og það sem mestu máli skiptir, að íbúum yrði ekki mismunað á grundvelli kynferðis.

Ég legg að lokum til, frú forseti, að frumvarpinu verði vísað til hv. félags- og tryggingamálanefndar Alþingis.