139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[15:00]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það skiptir mjög miklu máli í einu þjóðfélagi að menn reyni að stuðla að vellíðan fólksins í landinu, bæði til sálar og líkama. Það gerir hæstv. ríkisstjórn ekki. Hún er sífellt með kylfurnar á lofti, lemur út og suður og meiðir fólk í alvöru í hvunndagslífi, a.m.k. til sálar. Það á ekki að vera hlutverk hæstv. forsætisráðherra eða ríkisstjórnar hans. Það á ekki að rugga bátnum eins og gert er, það á ekki að auka foringjaræðið og sagan mun, því miður, greina núverandi ríkisstjórn með stóran mínus á bakinu.