140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

fundarstjórn.

[10:50]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það hefur ekki farið fram hjá þingmönnum að ummæli hv. þm. Björns Vals Gíslasonar þar sem hann brigslaði mér um að hafa verið drukkinn í ræðustól Alþingis fyrr í vikunni hafa haft ákveðnar afleiðingar í samskiptum hans við þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Hv. þm. Björn Valur Gíslason kom í ræðustól daginn eftir og baðst afsökunar á þessum orðum sínum en hann gerði það á þeim grunni að ég hefði neitað því sjálfur að hafa verið drukkinn í ræðustól, sem er rétt.

Ég las síðan blogg frá hv. þingmanni á Smugunni þar sem hann orðar þetta með öðrum og meira viðeigandi hætti. Þar staðfestir hann það að ég hafi ekki verið drukkinn og (Forseti hringir.) segir að hann hafi haft rangt fyrir sér.

Ég vil fara fram á það við virðulegan forseta að hv. þm. Björn Valur Gíslason fái að tala hér með skýrum hætti úr ræðustól Alþingis og gefa yfirlýsingu í þeim dúr (Forseti hringir.) sem hann gerði í bloggi sínu á Smugunni. Þá tel ég að hann hafi með nægilegum (Forseti hringir.) og viðeigandi hætti beðist afsökunar á þessum orðum sínum.