144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:53]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir spurninguna. Fyrst vil ég segja að ég held að þessi heimild breyti engu þar um. Ég er alinn þannig upp að vald og ábyrgð eigi að fara saman og það er enginn ráðherra sem ber stjórnskipulega ábyrgð á öllum athöfnum sínum, sem er undanskilinn þeirri ábyrgð að fara að stjórnsýslureglum um vandaða og málefnalega stjórnsýslu og ígrundaðar ákvarðanir.

Hv. þingmaður talaði um forgangsröðun. Ég rakti bara málið eins og það er, eins og það kom fyrir. Það voru ekki mín orð og það má vel vera að þau orð séu við hæfi. En ég rakti málið eins og það er og alveg fram að áliti umboðsmanns og viðbrögðum hæstv. ráðherra. Þetta var niðurstaðan af því, eins og málið var í sinni ýtrustu mynd.

Ég vil ítreka að hvort sem það er heimild eða ekki heimild getum við aldrei skotið okkur undan því að ábyrgð og vald fari saman og að við höfum það sem lög um opinbera stjórnsýslu setja okkur og öll þau viðmið um málefnaleg og rökfærðar ákvarðanir, áherslu á meðalhóf o.s.frv.