144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[22:51]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurninguna og svarið er nú þannig að ekkert samráð hefur verið haft við stjórnarandstöðuna um gerð þessa frumvarps. Það sem meira er varðandi flutning Fiskistofu var mér tjáð af þingmönnum stjórnarflokkanna að málið hefði aldrei verið rætt í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, aldrei verið rætt í þingflokki Framsóknarflokksins áður en það var kynnt opinberlega. Ég gat ekki betur skilið en að það hefði ekki verið kynnt í ríkisstjórn ráðherrum samstarfsflokksins áður en ráðherrar Framsóknarflokksins, forsætisráðherra og sjávarútvegsráðherra, kynntu það.

Ég vil hins vegar, til að leggja gott til, þakka hv. þingmanni fyrir að rifja þessi orð upp því að mér finnst þau góð og skynsamleg. Og þau eru kannski svolítið í anda þess sem ég lagði til áðan, að hægt væri að ná samstöðu um breytingu á 1. gr. frumvarpsins um þessa opnu heimild til að flytja stofnanir á þann veg að þingið þyrfti að koma að slíkum ákvörðunum um flutning og það væri með einhverjum hætti leitast við að skapa þverpólitíska samstöðu um slíkan flutning. Ég er staðfastlega þeirrar skoðunar að það sé allt í lagi að flytja stofnanir út á land ef efnisrök mæla með því og hagkvæmnisrök mæla með því. En það þarf þá að gerast í sátt og samvinnu við starfsfólk og það þarf gera þannig að við séum ekki að búa til þá hættu að fólk þurfi að þola búferlaflutninga á nokkurra ára fresti, því að starfsmenn Fiskistofu eru í þeirri stöðu að þeir voru fluttir af ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks til Hafnarfjarðar 2003 af kjördæmapólitískum ástæðum og átti núna að flytja aftur til Akureyrar 2015 af ríkisstjórn sömu flokka af kjördæmapólitískum ástæðum.

Hvar kreppir skóinn fyrir ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokksins ef svo illa (Forseti hringir.) vill til fyrir þjóðina að þeir komi aftur til valda til dæmis árið 2027? Hefði þá Fiskistofa verið flutt bara eitthvað enn annað, til Hornafjarðar?