150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

heilbrigðisþjónusta.

439. mál
[20:01]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Við ræðum hér í 2. umr. frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, er varðar þjónustustig, fagráð o.fl. Eins og fram hefur komið hefur hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson kynnt nefndarálit meiri hluta velferðarnefndar og kynnt þær breytingartillögur sem lagðar eru til af meiri hlutanum. Ég tel þær ekki ganga nógu langt til að bregðast við þeim fjölmörgu athugasemdum sem gerðar hafa verið, fyrst við frumvarpið í samráðsgátt stjórnvalda og svo núna eftir að það kom hér fyrir Alþingi.

Í samráðsgátt bárust 25 umsagnir frá hinum ýmsu hagsmunaaðilum og stofnunum, opinberum stofnunum og samtökum. Alþingi bárust 14 umsagnir og rauði þráðurinn í gegnum þær er eiginlega sá að samráð hafi verið lítið og lítið á ábendingar hlustað. Ég verð að segja að ég tel þetta miður vegna þess að um er að ræða mjög mikilvægt frumvarp. Það skýtur stoðum undir þá vinnu sem unnin var með þingsályktun um heilbrigðisstefnu sem var mjög góð. Þess vegna verður það kannski hálfdapurlegur endir á þeirri vinnu ef frumvarpið fer í gegn með þeim litlu breytingum sem meiri hlutinn leggur til.

En aðeins um ástandið hér á Alþingi. Nú eru það lögskýringargögn sem hér koma fram og þá verður maður að minna á það hér í ræðustól að Alþingi er að koma út úr þriggja mánaða ástandi sem hefur verið afar sérstakt, svo ekki sé sterkara að orði kveðið, ástandi sem kemur til af kórónuveirunni sem hefur lagt heimsbyggðina á hliðina um nokkurra mánaða skeið. Í morgun hófst móttaka ferðamanna, ef svo má að orði komast, í Leifsstöð og samfélagið allt er í rauninni enn þá mjög halt. Fjöldi fólks er atvinnulaus, heilbrigðiskerfið er víða laskað eftir þetta o.s.frv. Það er í því umhverfi sem ákveðið er engu að síður að klára þetta mál sem í eðlilegu árferði hefði fengið eðlilega og nauðsynlega umfjöllun. Því miður var það ekki svo í hv. velferðarnefnd. Við fengum vissulega til okkar gesti en því miður gafst ekki tími til umræðu um málið og það hefur svo sem komið fram í máli fleiri sem hafa tjáð sig hér í dag.

Ég geld varhuga við nokkrum atriðum og tek undir umsagnir fjölmargra. Ég vil þó byrja á því að segja að það er mjög gott að verið sé að skilgreina heilbrigðisþjónustu í fyrsta, annað og þriðja stig en ég hef áhyggjur af því að ekki sé tekið nógu vel á því er varðar öldrunarþjónustuna, hvað gerist varðandi greiðslu sjúkratrygginga og hvað gerist ef stofnanir sinna þriðja stigs þjónustu þrátt fyrir að vera í rauninni annars stigs þjónustuveitandi. Mér finnst dálítið eins og skautað sé fram hjá því í nefndarálitinu að auðvitað verði þetta bara þannig og auðvitað mega stofnanir sinna því ef þær eru að því. En mér finnst eins og ekki sé alveg tekið tillit til ábendinga um að það geti verið að heilbrigðisþjónustuveitendur lendi í vanda þegar kemur að því að semja við greiðanda, þ.e. Sjúkratryggingar Íslands, fyrir slíka þjónustu.

Ég hef áhyggjur af því hvernig hlutverk forstjóra er ákveðið í þessu máli. Á sama tíma og fjölmargir þingmenn, sérstaklega hægra megin við miðju, hafa frekar verið að kalla eftir að stjórn sé sett yfir Landspítala, að valdinu sé dreift meira og að passað sé upp á að forstjóri heilbrigðisstofnana hafi ekki of mikil völd einn og sér heldur verði að dreifa valdinu, þá er akkúrat farið í hina áttina í þessu frumvarpi, þ.e. forstjóri hefur í rauninni heimild til að gera skipurit. Hann gerir það. Hann ákveður í þessu skipuriti hvort hann ætlar yfirleitt að hafa framkvæmdastjórn sér til halds og trausts og hefur um það sjálfdæmi. Hann ber skipuritið vissulega undir heilbrigðisráðherra en hafi hann mikinn sannfæringarkraft, og það veltur væntanlega á tengslum forstjóra við ráðuneytið og heilbrigðisráðherra hvernig tekið yrði á því, er jafnframt, miðað við umsagnir fagaðila, verið að vatna út svokölluð fagráð. Nú er talað um að hafa bara eitt fagráð á heilbrigðisstofnun í staðinn fyrir fleiri. Fjölmargir gagnrýndu það. Ég ætla að vitna í umsagnir bæði Landspítala og embættis landlæknis hvað þetta varðar. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félag sjúkraþjálfara, hjúkrunarráð, Læknafélagið, Læknafélag Íslands, læknaráð Landspítalans, læknaráð Sjúkrahússins á Akureyri og að ég held Læknafélag Reykjavíkur hafa öll gagnrýnt að fagráðin eigi að verða eitt eftir breytingar. Landspítali segir, með leyfi forseta:

„Í einu stóru fagráði er hætt við að raddir fámennari stétta eigi undir högg að sækja og því gæti þessi breyting haft þveröfug áhrif miðað við það sem henni er ætlað. Í stað þessara breytinga mætti hafa það opið að um eitt fagráð sé að ræða, sem kann að henta, sérstaklega á minni heilbrigðisstofnunum. Á stærri stofnunum er ekki óeðlilegt að þær fagstéttir sem þess óska eigi sín fagráð en að fagráðunum sé ætlað að hafa með sér samstarf og samráð í anda sannrar teymisvinnu. Afar mikilvægt er að starfsmenn eigi sér faglega rödd og vettvang til að láta hana heyrast innan þekkingarstofnana eins og heilbrigðisstofnana. Að auki er mikilvægt að fagfólk sjálft hafi um það að segja hverjum það treysti til setu í fagráði.“

Þetta kemur frá sjálfum Landspítala sem geldur varhuga við að hafa eitt stórt fagráð. Þetta kom líka frá öllum fagstéttunum. Og hvers vegna? Jú, vegna þess að ólík sjónarmið eru uppi hjá þessum aðilum. Ég velti líka fyrir mér að fagráðið skuli vera skipað af forstjóra og í rauninni er illa skilgreint hvernig forstjóri skipar það. Ráðherra skal kveða á um skipan og verklag í reglugerð en það er ekkert um það hvaða stéttir þurfi að sitja þar, hvernig þær skuli fundnar o.s.frv. Þarna erum við með forstjóra heilbrigðisstofnunar sem er gríðarlega mikilvæg, og honum er í sjálfsvald sett hvort hann hafi skipurit og hvort hann hafi framkvæmdastjórn og skipi fagráðið sem á að vera einhver öryggisventill.

Svo veltir maður fyrir sér rekstri stofnunarinnar. Í breytingartillögum hefur meiri hlutinn ákveðið að meiri háttar ákvarðanir varðandi reksturinn þurfi ekki að bera undir framkvæmdastjórn, sé framkvæmdastjórn yfirleitt til, heldur bara atriði er varða heilbrigðisþáttinn. Það er fjölmargt sem maður er hugsi yfir varðandi þær breytingartillögur og þá vinnu sem hefur átt sér stað í nefndinni.

Embætti landlæknis gerði líka athugasemd um skilgreiningu á fjarheilbrigðisþjónustu og ætla ég að fá að vitna í umsögn embættisins. Þar segir, með leyfi forseta:

„Eins og nefnt var í fyrri umsögn embættisins þegar málið var í samráðsgátt, hefði embættið viljað sjá skilgreiningu á fjarheilbrigðisþjónustu í endurskoðuðum lögum, enda ljóst að framboð og eftirspurn eftir slíkri þjónustu fer ört vaxandi. Embættið leggur til að löggjafinn noti tækifærið með fyrirhuguðum breytingum á heilbrigðislöggjöfinni og skilgreini formlega hvað átt er við með fjarheilbrigðisþjónustu. Slíkt mun án vafa auðvelda heilbrigðisstarfsmönnum, -stofnunum og stjórnvöldum að átta sig á grundvelli slíkrar þjónustu sem og heimildum til að veita hana.“

Þá kemur að umsögn embættis landlæknis um fagráðin. Þar segir, með leyfi forseta:

„Embættið áréttar það sem fram kom í fyrri umsögn um að mikilvægt er að gaumgæfa skipan, verksvið og verklag fagráða heilbrigðisstofnana í ljósi þess að á Íslandi eru samtals 35 skilgreindar heilbrigðisstéttir og er vel að lagt er til að slíkt verði gert með reglugerð. Mikilvægt er að haft verði samráð við heilbrigðisstéttir við setningu þeirrar reglugerðar.“

Nú hafa heilbrigðisstéttirnar sjálfar lagst mjög gegn þessu þannig að maður veltir fyrir sér hvort þetta sé mjög skynsamleg ráðstöfun. Það kom aðeins til umræðu í hv. velferðarnefnd fyrir viku hvort ekki væri nauðsynlegt að hafa skilgreiningu á fjarheilbrigðisþjónustu í frumvarpinu eins og embætti landlæknis bendir svona rækilega á, bæði í samráðsgátt og í þeirri umsögn sem það sendi hv. velferðarnefnd, en meiri hlutanum þótti ekki tími til þess. Þá kem ég aftur að því sem hér ræddi í upphafi, maður skynjar skilningsleysi meiri hluta eða ráðherra á því ástandi sem hefur verið hér. Ég átta mig alveg á því að ráðuneytið hefur heldur betur verið önnum kafið og ráðherra líka en það breytir því ekki að þingið hefur líka verið önnum kafið í þessa þrjá mánuði og þess vegna ekki getað unnið þetta mál eins og nauðsynlegt hefði verið. Umsagnir fagstétta og fagstéttir sem mættu fyrir nefndina töluðu um að með því að breyta t.d. ákvæðum um fagráð og með því að breyta og auka svona umtalsvert völd forstjóra væri verið að beita stéttirnar ákveðinni þöggun. Það væri ekki samráð núna á heilbrigðisstofnununum.

Ég leyfi mér að trúa að þrátt fyrir allt sé vilji hv. meiri hluta velferðarnefndar að vinna þetta mál vel. Vegna þess og af því að ég held að það sé líka vilji hæstv. heilbrigðisráðherra og starfsfólks ráðuneytisins að vinna þetta vel, enda er mikið í lagt og þingsályktun um heilbrigðisstefnu mjög mikilvæg og þetta er mjög mikilvægt mál, þá skil ég ekki hvers vegna meiri hlutinn í hv. velferðarnefnd leyfði ekki umræðu um málið. Nú hefur reynt á slíkt í hv. velferðarnefnd varðandi stór mál og það gerðist t.d. í morgun varðandi endurskoðun á lyfjalögum, sem er ekkert smáræði, mjög mikilvægur lagabálkur. Þar heimilaði framsögumaður málsins, hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson, umræðu um það mál og vil ég hrósa honum fyrir að hafa gert það. En að sama skapi langar mig að gefa hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni, sem einnig er framsögumaður í þessu máli, tækifæri til að leyfa umræðu um þetta mál líka í nefndinni. Ég held að það sé betra að taka einhvern tíma aftur í þetta mál, leyfa athugasemdum sem varða allar þessar heilbrigðisstéttir að komast að.

Ég legg því til að málið verði tekið aftur inn í nefndina milli 2. og 3. umr. af því að ég tel þetta það mikilvægt mál að við verðum að vanda okkur. Það er ekki gott þegar við flýtum okkur um of. Það hefur gerst áður í nefndinni.

Annað mál sem var í nefndinni og varðaði neyslurými var keyrt í gegnum nefndina með sambærilegum hætti, þ.e. umræður ekki leyfðar, athugasemdir nefndarfólks ekki leyfðar. En það mál strandaði hjá starfsfólki Alþingis sem var sammála um að nefndarálitið sem afgreitt hafði verið út úr nefndinni af hv. meiri hluta væri ófullbúið og þyrfti því að taka það aftur inn í nefndina og vinna það með fullnægjandi hætti. Ég held að Alþingi skuldi landsmönnum það að vanda sig þegar kemur að jafn mikilvægu máli og breyting á lögum um heilbrigðisþjónustu er. Við skuldum öllu því fagfólki sem starfar á heilbrigðisstofnunum um allt land, embætti landlæknis, öllum þessum fagfélögum, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og fleirum, að við drífum okkur ekki í að henda málinu út úr nefnd af því bara, heldur vinnum það á faglegan hátt. Þess vegna legg ég til að málið verði kallað inn í hv. velferðarnefnd milli 2. og 3. umr.