131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Verðbréfaviðskipti.

503. mál
[18:57]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þingmenn Samfylkingarinnar styðja frumvarpið en við flytjum breytingartillögur sem styrkja enn frekar eftirlit með fjármálamarkaðnum og aðgerðir gegn markaðssvikum og einnig tillögur um að auka gegnsæi markaðarins. Breytingartillögurnar fela í sér að miða yfirtökuskyldu sem stofnast í skrá við hlutafélagið þegar tengsl eru skilgreind við 20% í stað þriðjungs atkvæðisréttar. Það er í samræmi við tillögur Fjármálaeftirlitsins því að á umliðnum árum hafa margsinnis komið upp tilvik þar sem kallað hefur verið eftir aðgerðum Fjármálaeftirlitsins og hægt hefði verið að taka á ef 20% viðmiðið hefði gilt um yfirráð tengdra aðila. Þess vegna leggur Fjármálaeftirlitið áherslu á að fá inn breytingartillögurnar.

Í annan stað er kveðið á um í breytingartillögunum að Fjármálaeftirlitið fái heimild til stjórnsýslusektar vegna markaðssvika og Fjármálaeftirliti verði skylt en ekki bara heimilt að birta opinberlega niðurstöður í málum sem Fjármálaeftirlitið tekur til athugunar eða rannsóknar.

Þessar breytingartillögur flytjum við en að öðru leyti styðjum við frumvarpið.