131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[21:37]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur ekki á óvart þegar þessi þingmaður tekur til máls um orkumál, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, að hann geri of lítið og nánast ekkert úr því hagræði sem við höfum haft af því á undanförnum áratugum að efna hér til stórvirkjana og stóriðju. Hann minntist á það að hann hefði sest hér á Alþingi fyrir rúmum 20 árum, 1983. Ætli það hafi ekki verið rétt um þær mundir sem þær tekjur sem við Íslendingar höfðum af álverinu í Straumsvík höfðu greitt upp allan stofnkostnaðinn við Búrfellsvirkjun þannig að við áttum hana eftir það gratís og tekjurnar af henni léttu undir með okkur þegar við héldum áfram virkjunum á öðrum stöðum. Ég hygg að hv. þingmanni sé þetta mætavel kunnugt. Ég hygg líka að hann viti það vegna þess að rétt á þeim tíma sem hann var að koma á þing þá hafði þáverandi iðnaðarráðherra, Hjörleifur Guttormsson, farið með flokkssystkin sín upp á Kárahnjúka og á það svæði til þess að sýna þeim hvernig hann sá í hyllingum fram undan mikið orkuver rísa með stóriðju niður á Reyðarfirði og skildi um þær mundir þann mikla arð og þann mikla hagnað sem við Íslendingar höfum haft af stórvirkjunum og stóriðju. Á hinn bóginn get ég sagt hv. 5. þm. Norðausturkjördæmis Steingrími J. Sigfússyni til hróss að hann hefur ævinlega verið andvígur álverum, andvígur stóriðju. Ég hygg að það eigi eftir að koma á daginn nú að hann sé jafnandvígur því eins og áður að álver og stóriðja rísi á Norðurlandi vegna þess að hann ímyndar sér að á því muni allir Norðlendingar tapa og af því að hann ímyndar sér að þá þyrftu Norðlendingar að greiða hærra orkuverð en ella sem er auðvitað tóm vitleysa.