132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

íþróttastefna.

753. mál
[14:17]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Mér heyrist að hv. þm. Valdimar L. Friðriksson hafi að hluta til svarað fyrirspurninni í formála sínum. En það er rétt að í janúar árið 2005 skipaði ég starfshóp er skyldi fara yfir íþróttamál á Íslandi með það að markmiði að móta íþróttastefnu. Starfshópurinn skilaði skýrslu í byrjun þessa árs um íþróttavæðingu Íslands.

Þingmaðurinn spyr hverjir hafi komið að þessari stefnumótunarvinnu og er því til að svara að í starfshópnum eiga eftirfarandi sæti: Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður sem er formaður nefndarinnar, Hanna Katrín Friðriksson, skipuð án tilnefningar, Ellert B. Schram, tilnefndur af Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, Lárus Blöndal, tilnefndur af Íþrótta- og Ólympíusambandinu, Anna Kristinsdóttir og Albert Eymundsson sem voru tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og síðan var Gunnlaugur Birgir Gunnlaugsson tilnefndur af Ungmennafélagi Íslands og Líney R. Halldórsdóttir tilnefnd af íþróttanefndinni. Starfsmenn starfshópsins voru Bryndís Björk Ásgeirsdóttir félagsfræðingur og síðar Silja Björk Baldursdóttir uppeldis- og menntunarfræðingur.

Á fund starfshópsins voru boðaðir fjölmargir aðilar og má nefna fulltrúa frá Íþróttakennaraháskólanum á Laugarvatni eða KHÍ, Íþróttakennarafélaginu, Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur, sérsamböndunum, Félagi íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa, Íþróttaakademíunni, Geðrækt, Lýðheilsustöð, heilbrigðisráðuneytinu, félagsmálaráðuneytinu, fulltrúa aðila vinnumarkaðarins og fleiri. Auk þess fór starfshópurinn í heimsókn til UMFÍ, Íþrótta- og Ólympíusambandsins og Íþróttabandalags Reykjavíkur.

Síðan kemur spurningin um helstu þætti og markmið íþróttastefnunnar. Þar segir m.a. að íþróttastefna Íslands miði að aukinni þátttöku landsmanna, ekki síst barna og unglinga, í íþróttum sem og reglulegri hreyfingu. Því eigi að skipa íþróttastarfi veglegan og verðugan sess í íslensku þjóðlífi og auka árangur íslensks íþróttafólks á heimsvísu.

Til að nálgast framtíðarsýn íþróttastefnu Íslands og þá lykilþætti sem skilgreindir eru í skýrslunni „Íþróttavæðum Ísland — aukin þátttaka — breyttur lífsstíll“ eru eftirfarandi markmið sett fram:

Að allir Íslendingar hafi tækifæri til þess að stunda íþróttir á því sviði sem þeir kjósa, hvort heldur er til ánægju, heilsubótar eða með afreksárangur í huga, að börn og ungmenni geti stundað íþróttir í samfelldum skóladegi sem gefur færi á auknum samverustundum fjölskyldunnar, þ.e. að skólakerfið sjái til þess að hreyfing verði hluti af lífsstíl ungmenna, að stuðla að jákvæðu hugarfari gagnvart hreyfingu og íþróttum barna og unglinga, í leikskólum og skólum, meðal foreldra, kennara, skólastjóra, íþróttahreyfingarinnar, yfirvalda, ráðamanna og fleiri, að mæla með hlutlægum hætti árangur af íþróttastefnu á líkamlegt og andlegt atgervi þjóðarinnar, að auka samvinnu á milli þeirra aðila sem koma að íþróttamálum í landinu, að auka íþróttaárangur Íslendinga á alþjóðavísu, að íslenskt íþróttalíf verði ávallt laust við ólöglega lyfjanotkun o.fl.

Hvenær hyggst ráðherra hrinda þessari stefnu í framkvæmd?

Starfshópurinn skilaði þessari áfangaskýrslu í mars sl. og hún var kynnt opinberlega þann 14. mars. Áfram er unnið að því að móta stefnu í íþróttamálum og er í því skyni fyrirhugað að leita eftir frekari ábendingum, m.a. með því að halda fundi víða um land, en þetta kom glögglega fram á þeim fundi sem við héldum, ég og formaður nefndarinnar, varðandi þessa skýrslu. Við setjum hana fram sem áfangaskýrslu, sem drög að því að móta íþróttastefnuna sem mun bera yfirskriftina „Íþróttavæðum Ísland“. Við hvetjum alla sem vilja láta sig málið varða til að koma með athugasemdir og ábendingar. Við erum með skýrsluna á vef ráðuneytisins og ég vonast til þess að ábendingar verði þannig að við getum unnið úr þeim og skilað þannig sterkri stefnu til þess að íþróttavæða Ísland. Við ætlum m.a. að funda víðs vegar um landið til þess að gefa sem flestum kost á því að koma með athugasemdir og fræða fólkið um stefnuna. Það hafa sem betur fer margir skoðanir á því hvernig við eigum að móta þessa stefnu.

Síðan er spurt: Mun aukið fjármagn til íþróttamála/íþróttahreyfingarinnar fylgja framkvæmd þessarar stefnu?

Það snertir einfaldlega fjárlagagerðina hverju sinni og við munum ræða þetta í tengslum við fjárlögin. En ég vil sérstaklega taka fram í þessu samhengi að framlög til íþróttamála hafa verið aukin verulega á undanförnum árum og m.a. verið lagður grundvöllur að því að við getum rætt það að íþróttavæða Ísland. Framlögin hafa m.a. verið tvöfölduð frá árinu 2000 og á milli áranna 2005 og 2006 voru þau aukin um tæpan fjórðung.

Síðan er spurt hvort ég muni tryggja minnihlutahópum, samkynhneigðum og innflytjendum, greiðari aðgang að íþróttaiðkun. Þá er rétt að geta þess að eins og fram kemur í skýrslunni er markmiðið að allir Íslendingar hafi tækifæri til þess að stunda íþróttir á því sviði sem þeir kjósa, hvort heldur er til ánægju, heilsubótar eða með afreksárangur í huga. Þetta á við alla, þá sem hv. þingmaður vill nefna minnihlutahópa sem aðra.