139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

endurútreikningur lána.

[10:44]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er samningsfrelsi í landinu. Það sem við gerðum með löggjöfinni í desember var að hlutast til um það á þeirri forsendu að við teldum efnisrök fyrir því að tryggja að lánin yrðu endurreiknuð á forsendum þeirrar niðurstöðu sem Hæstiréttur hafði komist að. Það er ekkert frelsi fjármálafyrirtækjanna um það hvernig þau endurreikna lánið, það er alls ekki þannig. Það er hins vegar ljóst af stöðu málsins að það verður gengið eftir því að rétt verði reiknað en það var enginn valkostur við það að fela fjármálafyrirtækjunum endurreikninginn. (Gripið fram í.) Það var engin leið að ríkið gæti yfirtekið tugþúsundir lána og endurreiknað þau. Fjármálafyrirtækjunum hlaut alltaf að verða falið að endurreikna þetta á forsendum lagaákvæða. Það hefur verið gert. Nú verður gengið eftir því að það sé gert. (Gripið fram í.) Það var gefin út reglugerð, hv. þingmaður, og það er hluti af (Forseti hringir.) furðulegum málflutningi í þessu máli að segja að það hafi ekki verið gert. Það sýnir að þeir þingmenn sem hæst geipa hafa stundum ekki einu sinni fyrir því að fletta upp í reglugerðasafninu og sjá hvort reglugerðir hafi verið settar. Reglugerðin var sett. (Forseti hringir.) Það voru engin vanhöld á því af hálfu ráðuneytisins. Það verður (Forseti hringir.) greitt úr þessu máli ef einhverjar ástæður koma upp. [Kliður í þingsal.]